Víkingur og Fylkir styrktu stöðuna

Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði sigurmarkið fyrir Víking á Reyðarfirði í …
Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði sigurmarkið fyrir Víking á Reyðarfirði í kvöld. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

Reykjavíkurliðin Víkingur og Fylkir styrktu stöðu sína í efstu sætum 1. deildar kvenna í knattspyrnu með sigrum í kvöld.

Víkingar fóru austur á Reyðarfjörð og sigruðu þar Fjarðabyggð/Hött/Leikni í spennuleik, 1:0. Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

Fylkir lagði HK að velli, 3:2, í Árbænum. Fylkir komst í 3:0 þegar Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði fyrst og svo Þórhildur Þórhallsdóttir tvisvar. Isabella Eva Aradóttir og Emily Sands svöruðu fyrir HK sem fékk nokkur góð færi til að jafna á lokamínútum leiksins.

Víkingur er nú með 32 stig á toppnum, Fylkir er með 26 stig, Grótta, Afturelding og HK eru með 23 stig hvert þegar fimm umferðum er ólokið.

Fram vann auðveldan sigur á Augnabliki í lykilleik í botnbaráttunni, 5:0, og er nú komið í mjög örugga stöðu með 16 stig í sjöunda sætinu. FHL er með 13 stig, KR sjö stig og Augnablik aðeins fjögur og flest bendir til þess að KR og Augnablik falli niður í 2. deildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert