KA er komið í þriðju umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta eftir jafntefli gegn Dundalk á Írlandi í kvöld, 2:2, í seinni leik liðanna í annarri umferð.
KA vann þar með einvígið 5:3 og mætir Club Brugge frá Belgíu sem vann AGF frá Danmörku 3:1 samanlagt en tapaði seinni leiknum í Árósum í kvöld, 1:0.
Dundalk sótti meira frá byrjun en lítið hafði gerst upp við mörkin þegar KA náði forystunni á 14. mínútu. Kristijan Jajalo tók langa markspyrnu, Ásgeir Sigurgeirsson skallaði aftur fyrir sig og inn fyrir vörnina. Jóan Símun Edmundsson stakk sér aftur fyrir varnarmennina, lagði boltann fyrir sig og skoraði af yfirvegun, 1:0 fyrir KA.
Írarnir sóttu stíft í kjölfarið og fengu mjög gott færi á 27. mínútu en Daniel Kelly skaut framhjá marki KA.
Þeim tókst að jafna metin á 33. mínútu. Ryan O'Kane átti góða fyrirgjöf frá vinstri og John Martin stakk sér inn á markteiginn nær og skoraði með hörkuskalla, 1:1.
Dundalk sótti áfram og Connor Malley átti hörkuskot af 25 metra færi sem Kristijan Jajalo varði vel á 38. mínútu.
Írarnir héldu uppteknum hætti frá byrjun síðari hálfleiks og gerðu oft harða hríð að marki Akureyringa sem hins vegar vörðust vel og gáfu fá færi á sér.
KA fékk síðan gott færi á 53. mínútu, aukaspyrnu nánast á vítateigslínu, en Nathan Shepperd markvörður varði skot Hallgríms Mars Steingrímssonar örugglega.
KA var nærri því að komast yfir á ný á 66. mínútu þegar Jakob Snær Árnason skaut af markteig, í varnarmann, þverslána og yfir.
En það var Dundalk sem sótti nær án afláts og KA slapp með skrekkinn á 75. mínútu þegar John Martin skaut í þverslána og út af stuttu færi.
KA gerði hins vegar út um einvígið á 81. mínútu. Brotið var á Ívari Erni Árnasyni eftir hornspyrnu og dæmd vítaspyrna. Úr henni skoraði Hallgrímur Mar Steingrímsson af miklu öryggi, 2:1 fyrir KA.
Dundalk náði að jafna á 89. mínútu þegar Gregory Sloggett skoraði með skalla af markteig eftir hornspyrnu frá Ryan O'Kane, 2:2.
En áframhald KA var ekki í neinni hættu og Akureyrarliðið býr sig nú undir tvo leiki gegn Club Brugge næstu tvo fimmtudaga.