Bryndís Arna Níelsdóttir, framherji Vals, varð efst í einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni, í Bestu deild kvenna í fótbolta í júlímánuði.
Bryndís, sem er tvítug, fékk samtals sex M í fjórum leikjum Vals í mánuðinum, en þar er fimmtánda umferðin sem lauk 3. ágúst talin með þremur öðrum umferðum sem leiknar voru í júlí.
Hún fékk þessi sex M í þremur leikjum í röð þar sem hún fékk tvö M í hverjum fyrir sig, enda skoraði hún sex mörk í þessum þremur leikjum og er nú langmarkahæst í Bestu deildinni með 13 mörk á þessu tímabili. Þá var hún valin í lið umferðarinnar í þremur af fjórum umferðum deildarinnar í júlí.
Bryndís hefur samtals fengið 11 M á tímabilinu og er í hópi sjö efstu leikmanna deildarinnar í M-gjöfinni í heild sinni.
Nánari umfjöllun um leikmann og lið mánaðarins má nálgast í Morgunblaðinu í dag.