Annarra að velta því fyrir sér

Ágúst Eðvald Hlynsson, sem skoraði í dag, í baráttunni við …
Ágúst Eðvald Hlynsson, sem skoraði í dag, í baráttunni við Kristinn Jónsson. mbl.is/Óttar

„Þetta var kannski sanngjarnt en þegar þú færð á þig fjögur mörk og varnarleikurinn er eins og hann er þá er erfitt að biðja menn um að skora fimm mörk til að vinna leik.

Mér fannst sóknarleikurinn góður og við áttum auðvelt með að spila í gegnum KR-liðið og komum okkur í góðar stöður og sköpuðum fullt af færum en nýttum þau ekki nógu vel,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 3:4-tap sinna manna gegn KR á heimavelli í Bestu deildinni í fótbolta í dag.

„Það er ekki það sem fer með okkur, það er varnarleikurinn, einstaklingsvarnarleikurinn og boltinn úti um allan völl. Ekki bara í öftustu línu. Þegar við töpum boltanum þá erum við lengi að setja pressu á mennina, boltamennina, og þeir nýta sér það.

KR er með fljótan mann frammi í Luke (Rae) og Atli Sigurjónsson í góðum gír, þannig að varnarleikurinn verður okkur að falli,“ sagði Óskar í framhaldinu.

Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik gerði sex breytingar á byrjunarliðinu og meðal annars kom inn á miðjuna Alexander Helgi Sigurðarson. Hann þurfti að fara af velli snemma í fyrri hálfleik og svo lá einn af bestu leikmönnum Blika eftir á vellinum, Gísli Eyjólfsson, en hann fékk aðhlynningu og gat svo haldið leik áfram. Aðspurður um stöðuna á liðinu og leikjaálagið hafði Óskar þetta að segja:

„Auðvitað eru menn þreyttir og svo koma augnablik í þessu álagi þar sem að slokknar aðeins á mönnum. Ég held að þetta sé ekkert alvarlegt með Alexander. Gísli er ekki meiddur en við erum að reyna að gefa honum líka hvíld enda er hann búinn að spila mikið.

Þetta verður allt saman að koma í ljós. Við skoðum stöðuna 3. september eftir síðasta leikinn á móti FH. Þá erum við búnir að spila 21 leik á 73 dögum og þá skoðum við hvað er mikið eftir af löppunum á leikmönnum."

„Í grunninn þá höfum við tekið þetta þannig að það þýðir ekki að tala um að þetta sé svo erfitt og menn séu svo þreyttir og mikil álag. Þetta er bara það sem menn skrifuðu undir. Ef menn ætla langt í Evrópu þá eru margir leikir og ef menn ætla langt í bikarnum þá eru líka margir leikir.

Það er erfitt að kvarta yfir því en svo er það annarra að velta því fyrir sér hvort að KSÍ eða Íslenskur Toppfótbolti sé að hjálpa liðum þegar þau eru undir miklu leikjaálagi,“ sagði Óskar að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert