KR vann sjö marka leik á Kópavogsvelli

Klæmint Olsen úr Breiðabliki eltir KR-inginn Luke Rae í rigningunni …
Klæmint Olsen úr Breiðabliki eltir KR-inginn Luke Rae í rigningunni í Kópavogi í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

KR vann í dag glæsilegan 4:3-sigur á útivelli gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í Bestu deild karla í fótbolta. KR-ingar komust í 4:1 og héldu út á lokakaflanum. 

Luke Rae, Jakob Franz Pálsson, Atli Sigurjónsson og Sigurður Bjartur Hallsson gerðu mörk KR. Ágúst Eðvald Hlynsson og Höskuldur Gunnlaugsson gerðu tvö af mörkum Breiðabliks og eitt markið var sjálfsmark. 

Breiðablik var slegið út úr Meistaradeildinni á móti FC Kaupmannahöfn þegar liðið tapaði 6:3 ytra og þar áður höfðu þeir gert 1:1 jafntefli gegn Stjörnunni á heimavelli í Bestu deildinni.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðablik, gerði sex breytingar á byrjunarliðinu til að jafna betur út álagið á hópinn. Nýr leikmaður Breiðabliks, Kristófer Ingi Kristinsson, var ekki með þar sem að beðið er eftir leikheimild.

KR-ingar voru búnir að tapa síðustu tveimur leikjum sínum á heimavelli í deildinni. Þeir biðu afhroð gegn Val 0:4 á heimavelli síðustu umferð og töpuðu þar á undan 1:2 gegn Víkingum.

Vesturbæingar gerðu einnig breytingar. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, gerði tvær breytingar á sínu byrjunarliði. Markvörðurinn Simen Kjellevold var ekki með vegna meiðsla líkt og í síðasta leik en einnig var Kristján Flóki Finnbogason meiddur og Kennie Chopart var frá vegna veikinda.

Það má segja að það hafi verið komin pressa á bæði lið að sækja þrjú stig og í þessum sjö marka leik þá var einnig mikið um færi.

Heimamenn byrjuðu betur og fengu ágætis sóknarlotur en á 8.mínútu fengu KR-ingar skyndisókn. Atli Sigurjónsson fékk boltann vinstra meginn á vallarhelmingi Breiðablik og sendi svo hnitmiðaða sendingu vinstra meginn við teiginn þar sem Luke Rae tók við boltanum og skoraði framhjá Antoni Ara í markinu. 1:0 fyrir gestina.

Bæði lið áttu hörkufæri í kjölfarið en Blikar lágu á KR-ingum og það var á 14. mínútu þegar stíflan brast og Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði með skoti úr teignum eftir sendingu frá Antoni Loga Lúðvíkssyni. Staðan orðin 1:1.

Heimamenn sóttu mikið upp vinstra meginn þar sem að Davíð Ingvarsson var mikið í boltanum og sótti á Jóhannes Kristinn Bjarnason sem kann betur við aðeins framar á vellinum. Kennie Chopart, hægri bakvörður KR, gat ekki leikið með vegna veikinda.

Eins og áður kom fram gerði Breiðablik talsverðar breytingar á byrjunarliðinu og meðal annars kom inn á miðjuna Alexander Helgi Sigurðarson. Hann þurfti að fara af velli snemma í fyrri hálfleik og svo lá einn af bestu leikmönnum Blika eftir á vellinum, Gísli Eyjólfsson, en hann fékk aðhlynningu og gat svo haldið leik áfram.

Á 36. mínútu lét miðvarðarpar KR til sín taka á hinum enda vallarins. Finnur Tómas Pálmason fékk boltann hægra meginn við vítateigshorn heimamanna og sendi háan bolta í fyrsta inní teig Blika á fjærstöng þar sem að Jakob Franz Pálsson stangaði boltann í fjærhornið. Vel gert hjá KR en slæm dekkning hjá Blikum. 1:2- fyrir Vesturbæinga.

Bæði lið áttu síðan mjög góð undir lok fyrri hálfleiks. Það fyrra átti Gísli Eyjólfsson, leikmaður Blika, á 43. mínútu en Aron Snær Friðriksson í marki KR varði vel og það síðara átti Luke Rae leikmaður KR, skot rétt framhjá.

Á 52.mínútu var Höskuldur Gunnlaugsson, Bliki, kominn upp við endamörk hægra meginn í vítateig KR. Hann átti fasta sendingu/skot sem fór í nærstöngina og útaf.

Tveimur mínútum síðar, á 54. mínútu kom langur bolti fram í átt að vallarhelmingi heimamanna. Benoný Breki Andrésson, sóknarmaður KR, flikkaði boltanum áfram með höfðinu við miðjuhringinn og þar tók Atli Sigurjónsson við boltanum. Atli fór upp að vítateig Blika og skaut með vinstri í fjærhornið, framhjá Antoni Ara í markinu. Glæsilegt mark hjá Atla og KR-ingar komnir í vænlega stöðu, 3:1.

Aðeins mínútu síðar fékk Luke Rae boltann við vítateig Blika og átti hörkuskot í fjærhornið, upp í vinkilinn en boltinn small í stönginni og útaf. Þarna hefði KR nánast getað klárað leikinn.

Kristinn Steindórsson kom inná í lið Breiðabliks á 57. mínútu og átti að bjarga því sem bjarga varð í sóknarleiknum hjá Blikum. Kristinn átti þrumuskot í stöng nánast á sömu mínútu og hann kom inná.

Hinum meginn á vellinum, á 58. mínútu, komst Luke Rae í nánast eins stöðu og Atli Sigurjóns þegar hann skoraði. Luke átti hörkuskot á fjærstöng sem Anton Ari varði vel.

Fjórum mínútum síðar komust Blikar í góða sókn og Gísli Eyjólfsson átti þrumuskot meðfram jörðinni í stöngina, Gísli óheppinn þarna.

Blikar fengu nokkur horn á þessum tímapunkti og úr einu þeirra barst boltinn á Kristinn Steindórsson sem átti frábæra sendingu við enda línuna við vítateigshornið inní teig. Þar var Klæmint Olsen og hann skallaði rétt framhjá.

Það dró svo til tíðinda á 74. mínútu. Sigurður Bjartur Hallsson var nýkominn inná þegar hann stýrði aukaspyrnu Atla Sigurjónssonar í netið. Það má setja stórt spurningamerki við úthlaup Antons Ara í markinu en þetta var sannarlega ekki hans dagur.

KR-ingar komnir í 4:1 og allt leit út fyrir stærsta sigur liðsins í sumar og það gegn Íslandsmeisturunum á útivelli.

En Blikar gáfust ekki upp. Þeir grænu minnkuðu muninn á 88. mínútu þegar Höskuldur Gunnlaugsson átti sendingu inn í teig og boltinn fór af Finni Tómasi Pálmasyni, varnarmanni KR, í markið, 4:2

Þegar komið var fram í uppbótartíma fengu Blikar aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði glæsilegt mark upp í nærhornið. Allt í einu var bara eins marks munur á liðunum, 4:3.

Blikar reyndu að jafna en allt kom fyrir ekki og virkilega sterkur útisigur Vesturbæinga staðreynd í mjög fjörugum og skemmtilegum leik.

Hjá KR átti Atli Sigurjónsson stórleik ásamt Jakobi Franz Pálsyni. Þess má geta að Jakob fór útaf á 80. mínútu í stöðunni 4:1. Einnig átti Luke Rae góðan leik í sókninni enda fljótur og með öflugan skotfót.

Í liði Breiðablik var Anton Logi Lúðvíksson mjög öflugur ásamt þeim Davíð Ingvarssyni, Gísla Eyjólfssyni og Ágústi Eðvald Hlynsyni. Eftir leikinn er Breiðablik áfram í 3.sæti með 34 stig og KR fer upp í 5.sæti með 25 stig.

Breiðablik 3:4 KR opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert