Tryggvi Hrafn Haraldsson, sóknarmaður Vals, var mátulega ánægður með leik liðsins gegn KA á Hlíðarenda í dag. Valur lagði KA 4:2 en úrslitin voru í raun ráðin í leikhléi þegar Valur leiddi 3:0.
„Heilt yfir var þetta allt í lagi. Við vorum frábærir í fyrri hálfleik, 3:0 yfir og eigum að vera fleiri mörkum yfir í hálfleik finnst mér, segir Tryggvi í samtali við mbl.is.
„Við erum gjörsamlega að yfirspila þá og eigum að slátra þeim í fyrri hálfleik. Við byrjum svo illa í seinni hálfleik og fáum á okkur mark strax. Þetta var voða „sloppí“ í seinni hálfleik og þeir voru með yfirhöndina alls staðar,“ segir hann og bætir því við að Valsmenn hafi verið heppnir að vera þá með góða forystu og hafi siglt sigrinum þægilega heim.
Víkingur er með þriggja stiga forystu á Val í efsta sætinu og á liðið einnig einn leik til góða. Valsmenn eru þó staðráðnir að setja góða pressu á sjálfan Íslandsmeistaratitilinn, sem liðið hefur ekki unnið síðan árið 2020.
„Við erum ennþá inni í tiltilbaráttunni. Víkingar eru að spila frábærlega og eru ekki að tapa mörgum stigum. Ef það gerist þurfum við að nýta okkur það en við þurfum fyrst og fremst að klára að vinna okkar leiki og svo sjáum við hvað það gefur okkur.“
Þú ert orðinn markahæstur í deildinni. Ætlar þú að hirða gullskóinn?
„Já, eigum við ekki bara að segja það. Það er markmiðið núna að taka hann,“ segir sigurreifur og sjóðheitur Tryggvi Hrafn.