Breiðablik er komið í toppsæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu eftir 4:2-sigur á Þór/KA á Kópavogsvelli í dag.
Þór/KA byrjaði betur og á 12. mínútu leiksins kom Sandra María Jessen Akureyringum yfir, 1:0. Þá fékk hún sendingu fyrir frá Huldu Ósk Jónsdóttur, sem hafði verið mjög ógnandi, og lagði boltann í netið fram hjá Telmu Ívarsdóttur.
Blikaliðið var lengi í gang en undir lok fyrri hálfleiksins var það með öll tök á leiknum. Besta færi Blika í fyrri hálfleik fékk Agla María Albertsdóttir undir lok fyrri hálfleiksins. Þá tók hún boltann niður í teignum og kom sér í frábært skotfæri en skaut boltanum langt yfir.
Linli Tu jafnaði metin fyrir Blikaliðið á 63. mínútu eftir fasta fyrirgjöf fyrir frá Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur og staðan var orðin jöfn, 1:1.
Linli var svo aftur á ferðinni átta mínútum síðar þegar hún fékk sendingu frá Andreu Rut Bjarnadóttur og setti boltann í netið, 2:1, og Blikar búnir að snúa leiknum sér í vil.
Forysta Blika entist ekki lengi en á 79. mínútu jafnaði Bríet Jóhannsdóttir metin fyrir Akureyringa. Þá hafði hún verið inn á í eina mínútu þegar hún fékk sendingu frá Söndru Maríu og setti boltann í netið. Stórt spurningarmerki verður að vera sett á varnarleik Blika í því marki.
Blikar náðu þó forskotinu aðeins fimm mínútum síðar þegar Katrín Ásbjörnsdóttir kom Blikum aftur yfir. Þá stangaði hún hornspyrnu Öglu Maríu í netið.
Á 88. mínútu skoraði svo Birta Georgsdóttir fjórða mark Blika og innsiglaði sigur Kópavogsbúa. Þá sólaði hún varnarmenn Þórs/KA upp úr skónum og smellti boltanum í nær. Þetta var frábært mark og sigur Blika orðinn vís.
Breiðablik er komið í efsta sæti deildarinnar með 33 stig, einu stigi fyrir ofan Val sem á þó leik til góða. Þór/KA er í fjórða sæti með 23.
Breiðablik heimsækir Stjörnuna í Garðabæinn í næstu umferð en Akureyringar fá Val í heimsókn.