Krefst sigurs á heimavelli

Agla María Albertsdóttir með boltann í dag.
Agla María Albertsdóttir með boltann í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er gríðarlega ánægður,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 4:2-sigur Blika á Þór/KA í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í dag. 

„Þetta var erfiður leikur, Þór/KA er með gott og vel skipulagt lið. Þær eru gríðarlega öflugar í skyndisóknum og refsa grimmt. 

Við höfum átt erfitt með þær og tapað fyrir þeim tvisvar í ár. Það stefndi í svipaðan leik í fyrri hálfleik þar sem að þær ná að komast yfir og við eigum slakan leik út um allan völl. 

Sem betur fer var bara 1:0 og seinni hálfleikur var allt annar. Þar var allt betra hjá okkur. Góður karakter í okkar liði og við náðum að skora fjögur mörk sem að dugði til góðs sigurs. 

Ég er gríðarlega ánægður með hvernig stelpurnar svöruðu í seinni hálfleik. Hvert stig er dýrmætt og hér á heimavelli er bara krafa að við vinnum okkar leiki,“ sagði Ásmundur. 

Linli Tu, sem kom til Blika frá Keflavík í glugganum, skoraði tvö mörk fyrir Kópavogsliðið í dag. Var Ásmundur sáttur með hennar framlag.

„Hún hefur komið flott inn í þetta. Auðvitað tekur smá tíma að kynnast liðinu og læra nöfnin. Hún er að vaxa vel inn í þetta og komin með þrjú mörk. Hún er hrikalega flottur leikmaður sem ég er ánægður með.“

Ásta Eir Árnadóttir þurfti að fara meidd af velli í upphafi síðari hálfleiksins en í fagnaðarlátunum eftir leik var hún á hækjum. Ásmundur býst ekki við að hún geti tekið þá í úrslitaleik bikarkeppninnar gegn 1. deildarliði Víkings úr Reykjavík á föstudaginn.  

„Ég get ekkert sagt nema að hún steig í fótinn og fann einhvern smell í ilinni. Við þurfum að skoða það betur. 

Mér finnst ólíklegt að hún spili úrslitaleikinn, án þess að vita hvað er að. Þá er það samt ólíklegt.“

Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ásmundur fékk gult spjald eftir pirring út í dómarann.  

„Ég var aðeins pirraður út í dómarann. Mér fannst hann eiga að flauta oftar og þær fengu að fara fullhart í okkur á köflum. 

Það var atvik þar sem mér fannst dómarinn eiga að dæma klárt gult spjald en hann sá það ekki þannig. Ég var pirraður og fékk verðskuldað spjald.“

Ásmundur hyggst spenntur fyrir bikarúrslitaleiknum. 

„Það er kúnst að taka svona leik eins og í dag og klára hann. Það eru ekki margar æfingar fram að leiknum og núna þurfum við að safna kröftum. Þetta er stórleikur og mikið ævintýri, mjög gaman að taka þátt í því. 

Við verðum að búa okkur undir erfiðan andstæðing sem Víkingur verða.

Ég held það verði erfiðari leikur að mörgu leyti. Við þekkjum þær minna en efstu deildarlið og þær koma með allt að vinna. Það er mikill uppgangur í Víkinni og þetta er gott lið sem hefur slegið út tvö efstu deildarlið í bikarnum. 

Við mætum ekki með neitt vanmat en þetta verður kúnst. Ég held að þetta verði skemmtilegur en erfiður leikur fyrir okkur,“ sagði Ásmundur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert