Valur vann nokkuð sannfærandi sigur á KA í 18. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á heimavelli sínum að Hlíðarenda í dag. Lokatölur 4:2. Valur styrkir stöðu sína í öðru sæti deildarinnar með 41 stig að loknum 18 leikjum. KA er tuttugu stigum á eftir Val í sjöunda sætinu að loknum 17 leikjum.
Það var eiginlega ljóst í hvað stefndi þegar byrjunarliðin voru kynnt til leiks. Báðir miðverðir KA voru fjarri byrjunarliðinu, Dusan Brkovic í leikbanni og Ívar Örn Árnason ekki orðinn nægilega góður af axlarmeiðslum sínum. Hann var þó til taks á varamannabekk gestanna. Valur hefur þá verið á virkilega góðu skriði og með ansi óárennilega sóknarlínu.
Fyrsta markið leit dagsins ljós á 11. mínútu þegar Orri Hrafn Kjartansson átti góðan sprett upp vinstri vænginn. Hann náði föstu skoti að marki sem Jajalo varði beint fyrir fætur Tryggva Hrafns Haraldssonar og Akurnesingurinn gerði engin mistök og setti boltann fast neðst í nærhornið.
Annað markið var ansi slysalegt en á 21. mínútu hreinsaði Rodri boltann frá en ekki lengra en í höfuðið á Orra Hrafni sem lá í grasinu og þaðan fór boltinn til baka og í stöng og inn.
Það var svo á 39. mínútu sem þriðja og síðasta markið í fyrri hálfleik kom. Vond sending frá Daníel í varnarlínu KA. Patrick Pedersen þakkaði pent fyrir sig og lagði boltann á Tryggva Hrafn sem skaut reyndar beint á Jajalo í marki KA. Jajalo náði ekki að halda boltanum sem endaði í netinu.
KA átti sína spretti en Valur einhvern veginn virtist eiga inni auka gír. Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og úrslitin í raun ráðin.
Valur byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti en strax á 47. mínútu var það Adam Ægir, sem kom inn á fyrir Aron Jóhannsson í fyrri hálfleik, átti skot í varnarmann. Þaðan barst boltinn til Orra Hrafns sem setti hann í þverslánna áður en Tryggvi Hrafn smellti honum í stöngina.
KA minnkaði muninn á 50. mínútu þegar Sveinn Margeir fór framhjá Birki Má Sævarssyni á vítateigslínunni eftir sendingu frá Hallgrími Mar og setti boltann í nærhornið.
Á 54. mínútu bætti Birkir fyrir slakan varnarleik sinn með frábærri fyrirgjöf sem rataði beint á Patrick Pedersen í markteignum og sá danski gerði engin mistök og stýrði boltanum í netið.
KA-menn voru ekki dauðir úr öllum æðum en á 73. mínútu var það Elfar Árni Aðalsteinsson sem fiskaði vítaspyrnu þegar Frederik tók hann niður í teignum í baráttu um boltann. Ásgeir Sigurgeirsson steig á punktinn, sendi Frederik í öfugt horn og setti boltann örugglega í bláhornið hinum megin. 4:2 og tæpar tuttugu mínútur eftir.
KA-liðið lifnaði aðeins við eftir markið og gerði nokkrum sinnum harða hríð að marki Vals án þess að koma boltanum í netið og þar við sat. Lokatölur 4:2 á Hlíðarenda.
Mbl.is var á Hlíðarenda og færði ykkur það helsta í beinni textalýsingu.