Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, segir í samtali við mbl.is sigur Vals á KA á Hlíðarenda í dag hafa verið fyllilega sanngjarnan.
Valur vann leikinn 4:2 og kláraði liðið má segja leikinn í fyrri hálfleik.
„Ég var ekki ánægður með orkustigið hjá okkur í byrjun leiks, það vantaði smá upp á það og þá er þetta bara erfitt.“
Segist hann þó gríðarlega ánægður með seinni hálfleikinn og vera ánægður með þá sem komu inn á.
„Við komum inn í seinni hálfleikinn í erfiðri stöðu á móti frábæru liði Vals á útivelli og skorum tvö mörk og gerum þetta að leik aftur. Við fengum færi til að skora fleiri. Ég er gríðarlega ánægður með það.“
Hallgrímur segir KA vera í rosa prógrammi og að liðið sé að grafa djúpt.
„Menn eru bara að læra og þurfa að átta sig á því að þegar þeir koma heim eftir svona skemmtilegt bikarævintýri þá þarf maður að finna út úr því hvernig maður geti komið með 100% orkustig svo lengi sem ég er inn á. Mér fannst við feila aðeins þar.
Við vorum ekki nógu grimmir í fyrri hálfleik og Valur komst upp með að fá mikinn tíma á boltanum og þá endar þú með að hlaupa miklu meira en ef þú ert með aðeins betra orkustig. Það er það sem við ætlum að læra af þessu.“
KA er á leið til Belgíu þar sem Club Brugge bíður í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á fimmtudag. Það er gríðarlega þungt verkefni fyrir íslenskt lið en Hallgrímur er hvergi banginn.
„Við þurfum að verjast vel, við þurfum að trúa á sjálfa okkur og þora að spila boltanum. Það er allt hægt ef menn gera hlutina vel. Þú kemst ekki áfram á því að liggja og verjast allan tímann.“