Víkingur úr Reykjavík hefur gefið út nýja knattspyrnutreyju, hannaða af Hildi Yeoman, til stuðnings við Ljósið.
Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Framleiddar verða 300 treyjur og mun hver kosta 15.900 krónur. Allur ágóði treyjunnar rennur til Ljóssins.
Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður Víkings, fékk hugmyndina að verkefninu á haustmánuðum 2022. Þá var Halldór, ásamt Bergi Guðnasyni, þegar búinn að hanna aðal- og varatreyju félagsins og koma henni í framleiðslu í góðu samstarfi með Macron sem framleiðir einnig umrædda treyju.
„Hugmyndin var að fá fatahönnuð til að hanna treyju sem bæri höfundareinkenni hönnuðarins, frekar en að vera bundin af hefðinni og litum félagsins. Hildur Yeoman var sú sem Halldór leitaði fyrst til, enda einn fremsti fatahönnuður landsins. Hildur fékk frjálsar hendur við hönnunina og er óhætt að segja að litaval og munstur brjóti blað í sögu búninga á Íslandi, ekki bara hjá Víkingi heldur á landinu öllu.
Þegar kom að því að velja góðgerðarmál til að styrkja leituðu Víkingar til fjölskyldu Svavars Péturs Eysteinssonar, eða Prins Póló, en Svavar lést þann 29. september 2022 eftir harða baráttu við krabbamein. Svavar bjó ásamt fjölskyldu sinni í hverfinu, þar sem hún býr enn. Þau eru Víkingar og hafa börnin hans og Berglindar Häsler æft með félaginu. Það var því mikið fagnaðarefni þegar þau samþykktu að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Fjölskylda Svavars lagði til að ágóði verkefnisins færi til Ljóssins.
Munstrið sem sést í treyjunni var handmálað af Hildi Yeoman og má því segja að um listaverk á knattspyrnutreyju sé að ræða. Í hálsmáli treyjunnar stendur: „Nú! er góður tími“ en textinn var valin af fjölskyldu Svavars. Textinn er bein vísun í samnefnt lag Prins Póló. Kóróna Prinsins fullkomnar svo verkið fyrir ofan Víkingsmerkið. Þar sem hún kemur í stað hinnar hefðbundnu stjörnu.
Með þessu framtaki vill Víkingur halda áfram að láta gott af sér leiða og stuðla að skemmtilegra og hamingjusamara samfélagi. Hér eftir sem hingað til lítur Víkingur sér nær, bæði með hugmyndir að skemmtilegum verkefnum og til þess málefnis sem styrkinn hlýtur hverju sinni,“ segir félagið meðal annars í yfirlýsingu.