Breiðablik mátti þola stórt tap fyrir Zrinjski frá Bosníu, 6:2, í þriðju umferð undankeppni Evrópudeildar karla í knattspyrnu í Mostar í Bosníu í kvöld.
Þetta var fyrri leikur liðanna og þau mætast aftur á Kópavogsvelli næsta fimmtudag. Allt bendir til þess að Zrinjski komist í umspilsumferð Evrópudeildar og sé þar með öruggt með sæti í riðlakeppni en Breiðablik fari í umspilsumferð Sambandsdeildarinnar.
Útlitið var fljótt svart en strax á annarri mínútu leiksins kom Tomislav Kis Zrinjski yfir. Þá fékk hann boltann frá Mario Cuze rétt utan teigs og lagði boltann í netið, 1:0.
Zrinjski stjórnaði fyrri hálfleiknum frá A-Ö og á 21. mínútu, eftir ótal færi heimamanna, tvöfaldaði Matija Malekinusic forystu Zrinjski þegar hann fylgdi á eftir skalla fyrirliðans Nemanja Bilbija.
2:0 varð 3:0 á 30. mínútu þegar að Tomislav Kis bætti við öðru marki sínu. Þá tapaði Viktor Karl Einarsson boltanum klaufalega eftir sendingu frá Antoni Ara Einarssyni og Bilbija komst inn í boltann. Sendi hann boltann svo á Kis sem sendi Anton í vitlaust horn og þrefaldaði forystu heimamanna.
Tveimur mínútum síðar fékk Viktor Karl sitt annað gula spjald og var rekinn af velli. Stuttu seinna bætti Bilbija við fjórða marki Zrinjski þegar hann skallaði fyrirgjöf Malekinusic í netið.
Malekinusic var enn einu sinni á ferðinni á 39. mínútu þegar hann bætti við fimmta marki bosníska liðsins er hann fylgdi aftur á eftir skalla. Hálfleikstölur, 5:0.
Sjötta mark Zrinjski skoraði miðjumaðurinn Antonio Ivancic þegar hann potaði boltanum rétt innan teigs í nærhornið og kom heimamönnum í 6:0.
Blikar rönkuðu aðeins við sér eftir það og lagleg mörk frá Antoni Loga Lúðvíkssyni og Gísla Eyjólfssyni bættu aðeins stöðuna, bæði eftir stoðsendingar frá Klæmint Olsen, og 6:2 urðu lokatölur.