Afar óhugnanlegt atvik átti sér stað í leik Fjölnis og Álftaness í 2. deild kvenna í knattspyrnu í Grafarvoginum í kvöld.
Leikmaður Álftaness lenti í hjartastoppi á 35. mínútu leiksins en leikmaðurinn sem um ræðir er fæddur árið 2008 samkvæmt heimildum mbl.is.
Tveir læknar voru á svæðinu og tókst þeim í sameiningu að bjarga lífi leikmannsins en hann gat gengið sjálfur inn í sjúkrabíl og mun dvelja á Barnaspítala Hringsins í nótt.
Líðan leikmannsins er góð eftir atvikum samkvæmt heimildum mbl.is en ákveðið var að hætta leik í Grafarvoginum eftir atvikið og hefur honum verið frestað um óákveðinn tíma.