Hún var hætt að sjá almennilega

Ásmundur Arnarsson í kvöld.
Ásmundur Arnarsson í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við náðum ekki okkar besta í kvöld,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir tap fyrir Víkingi úr Reykjavík, 3:1, í úrslitaleik bikarkeppninnar í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. 

Margir leikmenn Blika voru fjarverandi vegna meiðsla og svo hafa nokkrir farið út í nám. Ásmundur sagði ástandið ekki hafa verið gott. 

„Ástandið á hópnum okkar í dag var ekki nógu gott. Orkan, stemningin og gleðin var öll hinum megin. Þær byrjuðu leikinn sterkt, eitthvað sem við ætluðum okkur að gera. 

Við náum að koma til baka og svara en rétt fyrir hálfleikinn ná þær öðru marki. Það var of stór biti fyrir okkur. Stelpurnar lögðu allt í þetta, gerðu sitt en við náðum ekki okkar besta í kvöld. 

Víkingsliðið var gott, vel skipulagt og orkumikið. Það gekk á lagið og kláraði leikinn vel,“ sagði Ásmundur. 

Víkingur er fyrsta lið sögunnar til þess að vinna bikarkeppnina, verandi í næst efstu deild. Ásmundur talaði fyrir leik að það yrði mögulega erfiðara að mæta Víkingum en efstu deildar liðum vegna þess að þau vissu ekki eins mikið um það.

„Ég fann fyrir því. Það var gríðarlega erfitt að undirbúa sig fyrir þennan leik og að ná í mannskap til að vera til taks. Enda sjáum við það á bekknum okkar að við erum með styrktarþjálfara og gamla leikmenn inn þannig að það er staðan hjá okkur. 

Við þurfum að líta verulega á hvað er rétt að gera og hvernig við viljum hafa hópinn,“ bætti þjálfarinn við. 

Blikakonan Hafrún Rakel Halldórsdóttir var tekinn af velli í fyrri hálfleik vegna höfuðmeiðsla. 

„Það var ekki að hjálpa okkur, hún var hætt að sjá almennilega þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að taka hana út af,“ sagði Ásmundur.

Breiðablik er á toppnum í Bestu deildinni. Ásmundur segir sitt lið gráta tapið í kvöld en að liðið verði enn grimmara fyrir vikið. 

„Við grátum þetta í kvöld. Gríðarlegt svekkelsi og mikil vonbrigði. En ég trúi því að við verðum enn grimmari í deildinni,“ sagði Ásmundur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert