Víkingur úr Reykjavík varð í kvöld bikarmeistari kvenna í fótbolta í fyrsta sinn eftir 3:1-sigur á Breiðabliki í úrslitaleik á Laugardalsvelli í kvöld.
Sigurinn er sérstaklega merkilegur fyrir þær sakir að Víkingur spilar í 1. deildinni og er fyrsta félagið utan efstu deildar sem verður bikarmeistari í kvennaflokki.
Víkingsliðið var ekki lengi að komast yfir, því Linda Líf Boama átti fallega sendingu inn í vítateig Breiðabliks eftir tæplega 50 sekúndna leik og Nadía Atladóttir mætti í teiginn og skoraði af miklu harðfylgi.
Kortéri síðar var staðan orðin jöfn, 1:1. Birta Georgsdóttir skoraði þá glæsilegt mark, en hún afgreiddi boltann í slána og inn með föstu skoti eftir að hafa leikið á nokkra leikmenn Víkinga.
Víkingar voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp, því Nadía kom 1. deildarliðinu aftur yfir á 43. mínútu þegar hún skoraði aftur af stuttu færi, nú eftir fyrirgjöf frá Emmu Steinsen Jónsdóttur frá hægri kantinum. Var staðan í hálfleik því óvænt 2:1, Víkingi í vil.
Víkingsliðið gaf fá færi á sér framan af í seinni hálfleik, gegn toppliði Bestu deildarinnar. Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir markvörður þurfti ekki oft að taka á honum stóra sínum.
Gott kvöld Víkinga varð svo fullkomið á 87. mínútu þegar Freyja Stefánsdóttir nýtti sér mistök í vörn Breiðabliks, hirti boltann af aftasta varnarmanni og skoraði þriðja markið, mínútu eftir að hún kom inn á sem varamaður.
Átti Breiðablik engin svör eftir það og stórkostlegur sigur Víkingsliðið staðreynd.