Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, segir liðið spennt fyrir því að taka þátt í sínum þriðja bikarúrslitaleik í röð í kvöld.
„Það leggst vel í okkur. Þetta er alltaf gaman og mikil hátíð. Þetta er kannski leikurinn sem öll lið vilja komast í. Okkur tókst það í ár og þetta er alltaf mikil gleði og mikil spenna fyrir þessu,“ sagði Ásmundur í samtali við mbl.is á fjölmiðlafundi í höfuðstöðvum KSÍ á miðvikudag.
Breiðablik, sem er á toppi Bestu deildarinnar, mætir topplið næst efstu deildar, Víkingi úr Reykjavík, á Laugardalsvelli klukkan 19 í kvöld. Á síðasta ári tapaði Breiðablik fyrir Val í bikarúrslitaleiknum en varð bikarmeistari árið áður, 2021, með öruggum sigri á Þrótti úr Reykjavík.
„Árið í fyrra endaði með tvöföldum vonbrigðum. Það var frábært að komast í bikarúrslitin og komast yfir í leiknum en að tapa leiknum voru vonbrigði. Svo vorum við í toppbaráttu allan tímann, í öðru sæti allan tímann, en í lokin misstum við það niður í þriðja og töpum Meistaradeildarsæti.
Þannig að það er hægt að kalla það tvöföld vonbrigði en það setur bara blóð á tennurnar á öllum, sem vilja gera betur. Við viljum alltaf gera betur.
Við viljum gera betur hér úti á vellinum á föstudaginn [í dag] og í deildinni sömuleiðis. Það hefur gengið ágætlega hingað til en lokatörnin er eftir. Það er klárlega hungur í mannskapnum,“ sagði hann.
Blikar hafa leikið vel undanfarið. Kemur bikarúrslitaleikurinn á sérstaklega góðum tíma fyrir liðið?
„Það er ágætis gangur á okkur en við erum búin að missa aðeins úr hópnum. Þær sem eru að fara í skóla eru farnar. Hópurinn er aðeins laskaður.
Það eru einhver spurningarmerki og einhverjar farnar út þannig að hópurinn er pínu þunnskipaður eins og er og við erum svona að skoða hvað við getum gert í þeim málum.
Auðvitað hefði verið gaman að geta haft þær með í þessu en þessi tímapunktur er oftast góður, aðeins komið inn í ágúst og við náum þá góðu veðri, góðri stemningu og vonandi mörgum á völlinn. Þannig að þetta er ágætis tímapunktur,“ sagði Ásmundur.
Spurður hverju mætti eiga von á frá Víkingi, sem leikur sinn fyrsta bikarúrslitaleik í sögu kvennaliðsins, sagði hann:
„Við megum eiga von á hörkuleik, erfiðum leik gegn góðu liði Víkings. Þó að sagan sé kannski ekki mikil milli liðanna þá er búin að vera góð uppbygging undanfarin ár hjá Víkingi.
Þær eru með ungt og efnilegt lið sem er komið í að vera gott lið á öllum vígstöðvum. Þær eru vel spilandi, vel „drillaðar,“ eru gott varnarlið.
Þær eru búnar að slá tvö Bestu deildarlið á leiðinni og annað þeirra er í toppbaráttu þannig að það væri galið að fara að vanmeta Víking eins og staðan er í dag. Það eru bæði lið búin að vinna sér rétt til þess að spila þennan leik og við eigum von á hörkuleik.“
Að lokum biðlaði Ásmundur til stuðningsmanna Breiðabliks um að skella sér á völlinn í blíðunni í kvöld.
„Það sem skiptir máli og þarf að koma til skila er að stemningin í stúkunni getur ráðið miklu. Við köllum eftir góðri mætingu úr Kópavoginum. Þetta getur ráðið úrslitum.
Eins og er þá erum við að tapa í stúkunni, Víkingur er búinn að selja fleiri miða. Þannig að það er bara ákall á Blika og Kópavogsbúa að mæta og hjálpa okkur að taka þennan leik.“