Glötuð dauðafæri í jafntefli KA og Breiðabliks

KA-menn fagna jöfnunarmarki Daníels Hafsteinssonar.
KA-menn fagna jöfnunarmarki Daníels Hafsteinssonar. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Fimm leikir eru spilaðir í Bestu-deild karla í dag. Þeim fyrsta var að ljúka en KA og Breiðablik riðu á vaðið og spiluðu á Greifavellinum á Akureyri kl. 16.

Bæði lið voru að spila í Evrópukeppnum á fimmtudag, Blikar í Bosníu-Hersegóvínu en KA-menn í Belgíu. Það var ekki að sjá á leik liðanna að einhver ferða- eða leikjaþreyta væri í mannskapnum. Eftir spennandi leik skildu liðin jöfn, 1:1 þar sem Blikar spiluðu manni færri allan seinni hálfleikinn.

Blikar hvíldu stóran hluta af lykilmönnum sínum og fengu yngri og óreyndari menn heldur betur að sýna sig og sanna.

Fyrri hálfleikurinn byrjaði nokkuð rólega en Blikar voru áræðnari í sínum aðgerðum og ógnuðu meira. Fyrsta mark leiksins var þeirra og kom það eftir góða sókn upp hægri kantinn. Klæmint Olsen var einn og óvaldaður í teignum þegar fyrirgjöfin kom og hann skallaði boltann í jörðina og í markið.

KA sótti strax í sig veðrið eftir mark Blika og voru heimamenn meira og minna með boltann fram að hálfleik. Í nokkur skipti skapaðist hætta við mark Blika og þeir þurftu að bjarga á línu einu sinni. Í uppbótatíma hálfleiksins fengu KA-menn vítaspyrnu þegar Oliver Stefánsson togaði Elfar Árna Aðalsteinsson niður. Oliver fauk út af með rautt spjald og Daníel Hafsteinsson hamraði svo boltann í markið af vítapunktinum. Staðan orðin 1:1 og kominn hálfleikur.

Ellefu gegn tíu komu leikmenn KA út í seinni hálfleikinn. Það var þó ekki að sjá þar sem leikmenn Breiðabliks voru mun aðgangsharðari og hættulegri. Leikurinn var mjög opinn og bæði lið að reyna að skora. Boltinn barst marka á milli og leikmenn úr hvoru liði fengu sannarlega færin. Elfar Árni Aðalsteinsson skallaði yfir af markteignum og Kristinn Steindórsson átti tvö góð skot á mark sem Kristijan Jajalo markvörður KA náði að verja.

Leið svo og beið án teljandi tíðinda síðustu tuttugu mínúturnar. Blikar léku skynsamlega og voru töluvert í grasinu. KA-menn söfnuðu spjöldum á meðan. Síðustu mínúturnar var nagandi spenna yfir því hvort það kæmi sigurmark en allt kom fyrir ekki. Á lokaandartökum leiksins fengu KA-menn tv dauðafæri og hinum megin komst Kristinn Steindórsson einn gegn Krisrijan. Hann skaut yfir markið

Jafnteflið gerir lítið fyrir KA-menn, sem eru í baráttu um sjötta sætið í deildinni. Blikar eru líklega búnir að missa af Íslandsmeistaratitlinum og sigla lygnan sjó í þriðja sætinu.

Blikar fagna marki Klæmint Olsen.
Blikar fagna marki Klæmint Olsen. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
KA 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Ágúst Orri Þorsteinsson (Breiðablik) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert