Monica Wilhelm, markvörður Tindastóls, átti sannkallaðan stórleik er liðið vann 2:0-útisigur á Þrótti í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Wilhelm varði nokkrum sinnum stórglæsilega og m.a. víti frá Katie Cousins í seinni hálfleik.
„Mér líður ótrúlega vel. Þetta var þvílíkur liðssigur. Við börðumst allan tímann. Það var það sem við ætluðum okkur fyrir leik. Að vera á fullu allan leikinn og gera þeim erfitt fyrir. Við gerðum það saman sem lið,“ sagði hún og hélt áfram.
„Ég finn alltaf fyrir smá taugum fyrir hvern leik, því þetta skiptir mig miklu máli. En sjálfstraustið er líka til staðar. Við vitum að Þróttur er með gott lið og við þurftum að finna leiðir og við fundum þær.“
Af fjölmörgum markvörslum þeirrar bandarísku í leiknum, var sú vítaspyrnuvarslan sú besta. Fór hún í rétt horn og varði virkilega vel frá löndu sinni.
„Líkurnar eru ekki með þér í vítum þegar þú ert markvörður. Ég reyndi að lesa hana. Alltaf þegar andstæðingurinn fær víti, er ég búin að ákveða að gefa allt mitt í skutluna. Ég náði að koma báðum höndum á boltann og það var mjög góð tilfinning,“ útskýrði hún.
Með sigrinum komst Tindastóll fjórum stigum fyrir ofan fallsæti, en liðið er í mikilli baráttu í neðri hluta deildarinnar. „Þetta er risastór sigur fyrir okkur. Við viljum ná efstu sex sætunum til að vera öruggar, en ef það tekst ekki er gott að vera í sjöunda sæti fyrir síðustu leikina.“
Wilhelm er á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku, en hún kom til Tindastóls úr háskólaboltanum vestanhafs. Hún er afar hrifin af lífinu og tilverunni í Skagafirði.
„Þetta er draumur. Ég gæti ekki beðið um betra fyrsta ár sem atvinnumaður. Þetta lið er fjölskyldan mín. Þetta er besta lífsreynsla ævi minnar. Við þurfum að keyra lengra en önnur lið, en við verðum betri hópur fyrir vikið. Þetta er búið að vera æðislegt,“ sagði hún.