Ótrúlegur sigur Tindastóls í Laugardalnum

Beatriz Parra í þann mund að koma Tindastóli í forystu.
Beatriz Parra í þann mund að koma Tindastóli í forystu. mbl.is/Eyþór Árnason

Tindastóll gerði góða ferð í Laugardalinn og vann 2:0-útisigur á Þrótti úr Reykjavík í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Tindastóll er enn í sjöunda sæti, en nú með 18 stig, og er liðið búið að slíta sig aðeins frá allra neðstu liðunum. Þróttur er enn í þriðja sæti með 25 stig.

Þróttur var sterkari aðilinn allan fyrri hálfleikinn og fékk fjölmörg tækifæri til að skora fyrsta markið. Monica Wilhelm í marki Tindastóls var hins vegar í miklu stuði og gerði nokkrum sinnum mjög vel í að koma í veg fyrir mörk.

Þá áttu heimakonur einnig nokkur hættuleg skot, þar sem boltinn rataði ýmist rétt yfir, eða framhjá. Þróttur var mikið meira með boltann og skapaði sér góð færi.

Það var því algjörlega gegn gangi leiksins þegar hin spænska Beatriz Parra skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Tindastól á 25. mínútu. Hún kláraði þá mjög vel upp í þaknetið úr teignum, eftir sprett hjá Murielle Tiernan. Var markið það fyrsta sem hún skorar í efstu deild á Íslandi.

Seinni hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri; Þróttur var miklu meira með boltann, óð í færum en átti erfitt með að skora.

Þróttarar fengu dauðafæri á 52. mínútu þegar Katla Tryggvadóttir náði í víti. Katie Cousins fór á punktinn, en Monica Wilhelm varði glæsilega frá henni og sá til þessa að Tindastóll héldi forskotinu.

Þróttur hélt áfram að sækja og varði sú bandaríska hvað eftir annað, oft úr góðum og hættulegum færum heimakvenna.

Það var því aftur algjörlega gegn gangi leiksins þegar Tindastóll komst í 2:0 á 74. mínútu. Murielle Tiernan fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Þróttar, brunaði framhjá nánast allri vörn Þróttar og skoraði með góðu skoti. Var markið hið glæsilegasta og gestirnir allt í einu komnir tveimur mörkum yfir.

Þróttur tók enn á ný völdin eftir markið, en sem fyrr tókst liðinu ekki að skora og ótrúlegur sigur gestanna var staðreynd, þrátt fyrir yfirburði Þróttar. 

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Þróttur R. 0:2 Tindastóll opna loka
90. mín. Birgitta Rún Finnbogadóttir (Tindastóll) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert