Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs KR í fótbolta, var ósáttur við hve hart miðverðir Víkings úr Reykjavík fengu að spila er liðin mættust í undanúrslitum bikarkeppninnar á Víkingsvelli í kvöld. Víkingur vann 4:1 og tryggði sér sæti í bikarúrslitum.
„Maður veit hvernig miðverðir Víkings fá að spila og hafa gert í allt sumar. Ef menn fá að hrinda eins og þeir vilja og það er aldrei dæmt, er það eitthvað sem dómarastéttin þarf að skoða og leyfa þá fleirum að ýta,“ byrjaði Rúnar í viðtali við mbl.is og hélt áfram:
„Eftir tvær mínútur kemur miðvörður Víkings og hendir Benoný út fyrir hliðarlínuna og aðstoðardómarinn var ofan í þessu. Það var ekkert dæmt. Þeim finnst þetta eðlilegt. Þetta væri öðruvísi ef einhver Íslendingur hefði gert þetta, þá er alltaf dæmt. Ég get ímyndað mér að við hefðum átt að fá víti, en það er ekki þess vegna sem við töpum, en rétt skal vera rétt,“ sagði hann.
Hrósaði Rúnar klókindum varnarmanna Fossvogsliðsins, á sama tíma og hann gagnrýndi hvernig dómarar á Íslandi taka á þeim.
„Þetta getur líka kallast reynsla eða að vera klókur. Ef þú ert alltaf að ýta þegar boltinn er ekki nálægt, getur þú unnið þér inn nokkra metra. Þetta er góð varnarvinna og svona vinna bestu varnarmenn í heiminum og komast líka upp með það. Menn þurfa að skoða þetta betur.
Ég leikgreini andstæðinganna og maður vonast til að dómarinn leikgreini bæði lið. Þeir eru að gera ýmsa hluti, eins og að keyra menn niður, eða henda sér sjálfir niður. Við viljum að hlutirnir væru betri. Það er ekkert út á dómarana í kvöld að setja, en það voru ákveðnir hlutir,“ sagði Rúnar.
Hann stillti upp kornungri þriggja manna miðvarðarlínu í kvöld. Gæti hann kennt sínum varnarmönnum að vera klókari?
„Við erum að fá á okkur mörk þegar menn geta verið búnir að taka sér betri stöður. Þú þarft ekki að vera grófur, að meiða eða hrinda mönnum. En þú getur stöðvað hlaup og Víkingar eru góðir í því, enda með Kára og Sölva að kenna þeim og þeir voru frábærir varnarmenn. Ég væri til í að geta kennt mínum leikmönnum þetta líka. Þú spilar eins fast og dómarinn leyfir. Þeir eru betri en við í því,“ sagði Rúnar Kristinsson.