Stjarnan lagði Blika í sex marka leik

Hulda Hrund Arnarsdóttir og Taylor Ziemer eigast við í kvöld.
Hulda Hrund Arnarsdóttir og Taylor Ziemer eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan vann Breiðablik, 4:2, í 16. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Fyrir leikinn gat Breiðablik með sigri endurheimt efsta sætið af Val.

Leikurinn byrjaði vel og skiptust liðin á að sækja hornspyrnur ásamt því að koma sér í ágæt færi. Stjarnan var þó heldur líklegri til að ná forystu. Það raungerðist þegar Hulda Hrund Arnarsdóttir skoraði fyrir Stjörnuna á 23. mínútu leiksins eftir að Telmu Ívarsdóttur mistókst að grípa fyrirgjöf Örnu Dís Arnþórsdóttur.

Eftir þetta róaðist leikurinn mjög mikið og lítið markvert gerðist allt þangað til á 45 mínútu þegar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði annað mark Stjörnukvenna, með skalla eftir aukaspyrnu frá Sædísi Rún Heiðarsdóttur.

Staðan í hálfleik var því 2:0 fyrir heimakonur í Stjörnunni.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Leikurinn var rólegur fyrstu mínúturnar. Á 56. mínútu fékk Sædís Rún fínt færi fyrir utan teig en Telma varði vel í marki Breiðabliks.

Á 60. mínútu kom flott sending yfir vörn Breiðabliks þar sem Jasmín Erla Ingadóttir mætti og skallaði boltann í netið. Staðan því 3:0 fyrir Stjörnuna.

Næstu mínútur voru ansi viðburðalitlar og skiptust liðin á að halda boltanum og skapa sér hálffæri. Stjarnan var samt alltaf skrefi á undan.

Á 78. mínútu minnkaði Breiðablik muninn í 3:1. Agla María Albertsdótti fékk sendingu sem hún skallaði yfir til Andreu Rut Bjarnadóttur sem síðan skoraði með föstu skoti.

Á 89. mínútu skoraði Agla María eftir fallega fyrirgjöf frá Birtu Georgsdóttur. Eftir þetta sóttu Blikakonur stíft og reyndu að jafna leikinn.

Við það opnaðist vörn Breiðabliks upp á gátt og það nýttu Stjörnukonur sér þegar þær brunuðu upp í skyndisókn þar sem Andrea Mist Pálsdóttir skoraði. Staðan orðin 4:2, sem urðu lokatölur leiksins.

Stjarnan 4:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka