Víkingur mætir KA í bikarúrslitum

Logi Tómasson og Jóhannes Kristinn Bjarnason í leik liðanna í …
Logi Tómasson og Jóhannes Kristinn Bjarnason í leik liðanna í Bestu deildinni í vor. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Víkingur úr Reykjavík tryggði sér sæti í bikarúrslitum karla í fótbolta með 4:1-heimasigri á KR í undanúrslitum í kvöld. Víkingur mætir KA í úrslitum 16. september á Laugardalsvelli.

Heimamenn voru mun meira með boltann framan af leik, gegn KR-liði sem náði ekki að halda boltanum vel innan síns liðs.

Fyrsta markið kom á 18. mínútu og það gerði Aron Elís Þrándarson með skalla af stuttu færi, eftir sprett upp vinstri kantinn og fyrirgjöf frá Matthíasi Vilhjálmssyni.

Aðeins tveimur mínútum síðar var staðan orðin 2:0, eftir svipað mark. Birnir Snær Ingason átti þá góðan sprett upp vinstri og fyrirgjöf á Erling Agnarsson, sem skoraði með skoti af stuttu færi.

Eftir annað markið færðist Víkingsliðið aftar á völlinn, sótti minna en gaf lítil sem engin færi á sér. Var staðan í leikhléi því 2:0.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað og var lítið um færi báðum megin. Leikurinn opnaðist hins vegar upp á gátt þegar Benoný Breki Andrésson skoraði með glæsilegum skalla á 60. mínútu með fallegum skalla úr teignum, eftir fyrirgjöf frá varamanninum Kennie Choprat.

KR-ingar voru líklegri næstu mínútur og var það gegn gangi leiksins þegar varamaðurinn Ari Sigurpálsson skoraði þriðja mark Víkings á 80. mínútu. Hann slapp þá inn fyrir vörn KR eftir sendingu frá Helga Guðjónssyni og skoraði naumlega, en Aron Snær Friðriksson í marki KR var í boltanum. Það dugði hins vegar ekki til, því boltinn lak yfir línuna.

Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Ari sitt annað mark og fjórða mark Víkinga. Hann átti þá fast skot að marki KR og í gegnum Aron í marki KR og í netið. Átti Aron að gera betur í markinu. 

Reynist það sigurmarkið og getur Víkingur unnið bikarkeppnina í fjórða skipti í röð. Varð liðið bikarmeistari árið 2019, 2021 og 2022. Keppnin var ekki kláruð árið 2020 vegna kórónuveirunnar. 

Víkingur R. 4:1 KR opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert