Hundsvekktur ef ég byrja ekki næsta leik

Brynjar Atli Bragason.
Brynjar Atli Bragason. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Brynjar Atli Bragason stóðst heldur betur prófið þegar hann fékk tækifæri í marki Breiðablik sem vann HSK Zrinjski 1:0 á Kópavogsvelli í kvöld. Brynjar Atli hélt hreinu og varði nokkrum sinnum vel frá gestunum frá Bosníu.

„Það er svekkjandi að hafa ekki náð að klára þetta verkefni þrátt fyrir sigur. Við fáum samt einn möguleika á að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Persónulega er ég samt mjög ánægður með sjálfan mig og þakklátur fyrir traustið frá Óskari í dag,“ sagði Brynjar.

Næsti leikur Blika er í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar þar sem liðið mætir Struga frá Norður-Makedóníu.

„Ég veit ekkert um næsta andstæðing en ég er vongóður. Okkar markmið er að komast í riðlakeppnina og ég sé ekki afhverju við ættum ekki að klára það verkefni.“

Andri Rafn Yeoman ræðir við gríska dómarann Anastasios Papapetrou í …
Andri Rafn Yeoman ræðir við gríska dómarann Anastasios Papapetrou í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hefur beðið þolinmóður

Það vakti athygli margra að Brynjar skyldi fá tækifæri í byrjunarliði Blika í kvöld á kostnað Antons Ara Einarssonar.

„Ég fékk enga sérstaka skýringu á því. Ég er búinn að standa mig vel síðustu mánuði og ég er búinn að bíða þolinmóður síðan árið 2020 þegar ég kom í Breiðablik. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er erfitt að skipta um markmann í svona stórum leikjum en ég er bara ánægður með að hafa fengið þennan leik og traustið frá Óskari.“

Hefði markmaðurinn viljað fá tækifæri fyrr?

„Á einhverjum tímapunkti hefði ég viljað fá sénsinn fyrr, já. Ég treysti samt bara Óskari fyrir valinu á besta liðinu og Anton er líka bara mjög góður markvörður og við erum góðir vinir sem stöndum þétt við bakið á hvor öðrum.“

Væru það vonbrigði ef þú fengir ekki að byrja næsta leik eftir framistöðuna í markinu í dag?

„Mér leið mjög vel í þessum leik og mér finnst ég vera á góðum stað núna þannig að ég verð hundsvekktur ef ég fæ ekki að byrja í næsta leik sérstaklega í ljósi þess að ég hef haldið hreinu í 3 af 4 leikjum sem ég hef spilað,“ sagði Brynjar Atli í samtali við mbl.is eftir sinn fyrsta Evrópuleik fyrir Breiðablik.

Jason Daði Svanþórsson á fleygiferð í Kópavoginum í kvöld.
Jason Daði Svanþórsson á fleygiferð í Kópavoginum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert