Breiðablik - Keflavík, staðan er 2:1

Breiðablik tekur á móti Keflavík í dag.
Breiðablik tekur á móti Keflavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik sigraði Keflavík 2:1 í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í kvöld. Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði fyrir Breiðablik á 30. mínútu leiksins en Stefán Ljubicic jafnaði metin fyrir Keflavík aðeins þremur mínútum síðar. Ágúst skoraði svo aftur fyrir Breiðablik á 65. mínútu leiksins og tryggði heimamönnum stigin þrjú.

Það voru heimamenn sem byrjuðu betur í kvöld og strax á 4. mínútu leiksins átti Jason Daði Svaþórsson gott skot sem Mathias Rosenörn varði virkilega vel. Aðeins fimm mínútum síðar varði Mathias aftur mjög vel frá heimamönnum en að þessu sinni var það Gísli Eyjólfsson sem átti skot á mark Keflvíkinga. Fyrsta færi Keflvíkinga kom á 19. mínútu leiksins en þá fékk Frans Elvarsson góða sendingu inn fyrir vörn Breiðabliks en skot hans fór yfir markið.

Á 30. mínútu leiksins náðu heimamenn að komast yfir en þá átti Ásgeir Helgi Orrason sendingu á Ágúst Eðvald inn á teig Keflvíkinga og Ágúst náði skoti á markið sem virtist fara í Gunnlaug Fannar og þaðan fór boltinn í stöngina og inn. Það tók ekki langan tíma fyrir gestina að svara þessu en á 33. mínútu leiksins tók Gunnlaugur Fannar langt innkast á miðjum vallarhelmingi Breiðabliks inn á teig Blika og þar náðu Magnús Þór að flikka boltanum áfram á Stefán Ljubicic sem skallaði boltann í netið og jafnaði metin.

Bæði lið fengu tækifæri til að bæta við mörkum í fyrri hálfleik en til dæmis átti Gísli Eyjólfsson gott skot á 35. mínútu leiksins en skotið fór rétt framhjá. Aðeins þremur mínútum síðar komst Oleksiy Kovtun einn innfyrir vörn Breiðabliks og aðeins eftir að setja boltann framhjá Antoni Ara en skot hans fór framhjá. 

Leikmenn Breiðabliks byrjuðu betur í seinni hálfleik og á fyrstu tíu mínútunum í seinni hálfleik varði Mathias Rosenörn þrívegis virkilega vel og kom í veg fyrir það að Blikar kæmust yfir. Fyrst átti Gísli Eyjólfsson skot sem Mathias varði. Svo átti Jason Daði sendingu fyrir mark Keflavíkur og þaðan fór boltinn í Nachos og boltinn virtist vera að rúlla yfir línuna en Mathias náði að stökkva á boltann og bjarga þessu á síðustu stundu. Svo átti Gísli Eyjólfsson aftur skot að marki sem Mathias varði vel.

Það var svo loksins á 65. mínutu leiksins að leikmenn Breiðabliks náðu að koma boltanum aftur framhjá Mathias í marki Keflavíkur. Gísli Eyjólfsson var kominn í gott færi en Sindri Þór Guðmundsson náði að tækla boltann af tánum af Gísla en því miður fyrir Sindra fór boltinn beint til Ágústar Eðvalds og hann setti boltann í netið. Þetta reyndist vera sigurmark leiksins en heimamenn voru líklegri til að bæta við þriðja markinu en gestirnir að jafna metin. Edon Osmani, leikmaður Keflavíkur, fékk rauða spjaldið á 90. mínútu leiksins en hann braut á Kristóferi Inga sem var við það að sleppa í gegn.

Þessi úrslit þýða að Breiðablik er komið í 38 stig og er áfram í þriðja sæti deildarinnar.  Keflavík er áfram á botninum en liðið er með 11 stig eftir 20 leiki en ÍBV er í sætinu fyrir ofan með 17 stig.

Breiðablik 2:1 Keflavík opna loka
90. mín. Edon Osmani (Keflavík) fær rautt spjald Edon Osmani fær rautt spjald. Virðist brjóta á Kristófer Inga sem var að sleppa einn í gegn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert