Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var sáttur eftir sigur á KR í Bestu deild karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld, 4:1.
„Já ég er sáttur með frammistöðuna. Það er auðvitað margt sem við getum gert betur, mjög margt. Þetta var jafn leikur og þeir náðu að spila allt of mikið í gegnum okkur þannig að það verður gaman að fara að leggja alvöru vinnu í það.
Það var mjög sterkt að vinna. Þeir fengu ekkert mörg alvöru færi þó þeir hafi spilað mjög vel. Þeir fengu dauðafæri í stöðunni 2:1 og hefðu getað jafnað en í fljótu bragði man ég ekki eftir öðru dauðafæri þó þeir hafi átt skot og eitthvað slíkt. Þeir voru mjög erfiðir og vel þjálfaðir, mjög erfitt að mæta þeim.“
Emil Atlason skoraði öll þrjú mörk Stjörnunnar í leiknum en hann hefur verið í miklu stuði undanfarið. Hann er nú orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar með 12 mörk.
„Hann er náttúrlega frábær framherji. Ég hef sagt það núna í nokkurn tíma að fyrir mér er hann besti framherjinn í deildinni. Það er ekkert vafamál þó það séu auðvitað frábærir framherjar í deildinni. Hann er með frábært hugarfar og persónuleikinn er geggjaður en svo líka passar hann bara vel hérna inn og er að njóta sín.
Hann hefur styrk, hann hefur hraða, hann er frábær í loftinu og góður að klára færi. Hann er með góðar sendingar líka og það er lítið sem vantar uppá. Vinnuframlagið er frábært líka og hann er mikill liðsmaður, númer eitt, tvö og þrjú hjá honum er að hjálpa liðinu, það er ekki að skora mörk.“
Fyrir leik voru Stjarnan, KR og FH jöfn að stigum í 4.-6. sæti. Sigurinn var því sérlega mikilvægur fyrir Stjörnuna.
„Við horfðum ekkert í þetta fjórða sæti fyrir þennan leik, vorum ekkert að pæla í því. Við skoðuðum KR og spáðum í það hvernig við vildum spila þennan leik, það gekk vel. Við erum ekkert að spá í þetta fjórða sæti, við ætlum bara að fara norður og ég er byrjaður að skoða þá. Ef við náum að gíra okkur rétt í þann leik förum við brattir inn í það.“
Daníel Laxdal spilaði sinn 500. leik fyrir Stjörnuna í kvöld. Jökull segir það ómetanlegt fyrir félagið að hafa mann eins og Daníel innan sinna raða.
„Þetta gefur félaginu mikið, að eiga svona fulltrúa. Fyrir stuðningsmennina að geta komið og fagnað svona með honum eins og þeir gerðu, og fyrir hann að fá þessar móttökur. Þetta er bara dýrmætt fyrir alla sem að þessu koma og ég held að það hafi allir verið mjög glaðir sem komu að þessu.“
Eins og Jökull segir fékk Daníel vægast sagt magnaðar viðtökur frá stuðningsmönnum Stjörnunnar í kv0ld.
„Þetta var ótrúlegt. Það var í síðasta leik líka þar sem það er enginn stuðningsmaður sem fer af vellinum fyrr en leikmenn eru búnir að koma og þakka fyrir sig. Það er enginn sem drífur sig heim. Þetta er bara ótrúlegt og alveg virkilega gaman.“