Albert kærður fyrir kynferðisbrot

Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Albert Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Genoa á Ítalíu, hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot.

Það er 433.is sem greinir frá þessu en Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, staðfesti í samtali við miðilinn að sambandið hefði fengið ábendingu um að búið sé að kæra landsliðsmann Íslands fyrir kynferðisbrot.

Í frétt 433.is kemur meðal annars fram að kona hér á landi hafi lagt fram kæru til lögreglu vegna meints brots Alberts sem á að hafa átt sér stað hér á landi í sumar.

Ekki með í næstu landsleikjum

„Ég get staðfest að það kom ábending á okkar borð um kæru vegna kynferðisbrots landsliðsmanns,“ sagði Vanda í samtali við 433.is.

Starfsfólki KSÍ var tilkynnt um málið í dag og Åge Hareide, þjálfari íslenska liðsins, getur því ekki valið Albert í landsliðshóp Íslands fyrir leikina gegn Bosníu og Lúxemborg í undankeppni EM sem fara fram í september.

Albert, sem er 26 ára gamall, á að baki 35 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hann hefur skorað sex mörk en hann hefur einnig leikið í Hollandi á atvinnumannaferlinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert