„Ég er gríðarlega stoltur af liðinu að hafa staðist þessa manndómsraun ef svo má segja,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Íslandsmeistari Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.
„Að ná að vinna útisigur á þessum velli, við þessar aðstæður er feikilega öflugt. Höskuldur dúkkar upp undir lok fyrri hálfleiks og skorar frábært mark eftir magnað einstaklingsframtak. Það var mjög gott að fara inn í hálfleikinn, verandi 1:0 yfir í leiknum. Seinni hálfleikurinn var svo bara stórfurðulegur.
Ég geri mér ekki grein fyrir því hversu margir metrarnir voru þarna, á sekúndu, en það var mjög hvasst. Það var mjög erfitt að spila fótbolta við þessar aðstæður og menn þurftu virkilega að bíta frá sér og verja markið sitt enda mikill vindur á markið okkar allan seinni hálfleikinn.
Strákarnir lögðu líf og sál í þennan leik og sigurinn er svo sannarlega þeirra. Eins og ég sagði áðan gæti ég ekki verið stoltari af þeim og að sjá þá uppskera eftir erfiðisvinnuna var frábært,“ sagði Óskar Hrafn.
Síðari leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli eftir slétta viku en sigurvegarinn úr einvíginu tryggir sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar sem hefst í september.
„Þessi leikur hérna úti átti sitt líf og hann er búinn núna. Ég er spenntur að mæta þeim á okkar heimavelli þar sem við þekkjum hvert einasta strá ef svo má segja. Við erum með örlögin í okkar höndum ef svo má segja og það er okkar að endurtaka leikinn gegn þeim í síðari leiknum sem verður erfitt.
Þetta er gott lið, þó margir Íslendingar hafi gert sitt besta til að tala þetta lið niður. Við þurfum að bera virðingu fyrir þeim jafnvel þó aðstæðurnar í leiknum í dag hafi virkað frumstæðar og völlurinn hafi ekki verið sá besti. Það eru leikmenn þarna sem eiga fullt af landsleikjum fyrir Norður-Makedóníu og við þurfum að eiga okkar besta leik til að klára einvígið.“
Það hefur verið mikið álag á Blikaliðinu undanfarnar vikur enda spilað þétt í deildinni hér heima á meðan Evrópuævintýri Breiðabliks hafa staðið yfir.
„Menn þurftu klárlega að grafa vel og djúpt í dag til þess að finna þennan aukakraft. Leikmennirnir eru klárlega orðnir þreyttir en það kemur ekkert annað til greina en að klára þessa törn. Mér hefur kannski fundist fulllítill sveigjanleiki til þess að hjálpa okkur í þessum aðstæðum en svona eru spilin gefin.
Það getur verið erfitt að horfa upp á leikmennina sína aðframkomna að þreytu en á sama tíma er stutt í landsleikjahlé. Þetta eru þrír leikir sem þurfum að klára fyrir þann tíma og við ætlum okkur að gera það með sóma,“ bætti Óskar Hrafn við í samtali við mbl.is.