Breiðablik mætti 26 mínútum fyrir leik í Víkina fyrir leik liðsins gegn Víkingi úr Reykjavík í Bestu deild karla í knattspyrnu.
Blikar mættu á Víkingsvöllinn klukkan 18:49 en leikurinn hefst klukkan 19:15. Hituðu Blikar upp á sínum velli frekar en Víkingsvellinum, sem er ekki vaninn. Fóru þeir þá ekki til búningskelfa heldur beint út á völl.
Skýrsla Blikaliðsins mætti einnig seint en vaninn er að skýrslur liðanna mæti klukkutíma fyrir leik.
Breiðablik fór þess á leit við KSÍ í síðustu viku að fresta leiknum til þess að minnka álag Kópavogsliðsins sem lék erfiðan leik við Struga í Norður-Makedóníu í undankeppni Sambandsdeildar UEFA á fimmtudag og fær liðið í heimsókn á Laugardalsvöll næstkomandi fimmtudag.
Beiðni Breiðabliks var hafnað og lagði knattspyrnudeild félagsins fram aðra beiðni í gær en samkvæmt Fótbolta.net var henni sömuleiðis hafnað.