Keflavík og Fram gerðu markalaust jafntefli í fallbaráttuslag í 21. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Keflavík í dag.
Framarar unnu fyrri leik liðanna í deildinni 4:1 og heimamenn voru staðráðnir í að reyna að ná sínum fyrsta heimasigri í sumar.
Þetta var svo sannarlega 6 stiga leikur því bæði lið þurftu sárlega á sigri að halda í botnbaráttunni.
Fyrri hálfleikur var afskaplega tíðindalítill. Bæði lið reyndu að skapa sér stöður og Keflavík voru aðeins sterkari en þó frekar bitlausir.
Langbesta færi fyrri hálfleiks áttu Framarar á 30. mínútu. Mathias Rosenörn, markvörður Keflavíkur, var kominn í smá bras út í teig og Aron Jóhannsson Framari hirti boltann, fór framhjá Mathias og átti hörkuskot meðfram jörðinni að marki en Magnús Þór fyrirliði Keflavíkur var réttur maður á réttum stað við línuna og hreinsaði.
Mínútu síðar átti Keflvíkingurinn Ísak Daði Ívarsson fínt skot þegar hann kom inn af vinstri vængnum og átti skot frá D boganum en Ólafur Íshólm í marki Fram varði vel.
Á 33. mínútu lenti Magnús Þór varnarmaður Keflavíkur í smá brasi, Fred hirti af honum boltann og skaut að marki við vítateiginn en Mathias Rosenörn varði vel. Fleira gerðist ekki í fyrri hálfleik, 0:0.
Seinni hálfleikur var heldur ekki mikið fyrir augað. Ernir Bjarnason, miðjumaður Keflavíkur lenti í hnjaski á 54. mínútu og þurfti að fara útaf á börum. Vonum að það sé ekki mjög alvarlegt.
Á 70. mínútu fengu Keflvíkingar gott færi til að komast yfir. Það kom innkast frá hægri inná vítateig, afmælisbarnið Nacho Heras tók við boltanum, átti fínan snúning framhjá varnarmanni og skaut svo boltanum yfir mark Framara.
Mínútu síðar fengu Framarar hornspyrnu frá vinstri.Boltinn flaug inní teig, einhverjir Framara lágu í teignum og boltinn fór af leikmanni í slánna og svo hreinsuðu Keflavíkingar. Erfitt var að sjá hver átti skotið. Þetta var líklega besta færi seinni hálfleiks.
Muhamed Alghoul fékk svo tvö fín skotfæri fyrir Keflavík á 84 og 86.mínútu. Fyrra skotið fór af varnarmanni og yfir og það seinna varði Ólafur Íshólm í marki Fram vel.
Bæði lið reyndu að komast í færi og ná sigurmarki í lokin en allt gekk ekki og leikurinn endaði 0:0.
Úrslitin eru alls ekki góð fyrir heimamenn sem eru ennþá neðstir í deildinni þegar ein umferð er eftir áður en henni er skipt og Framarar sitja sem fyrr í tíunda sæti í harðri baráttu um að halda sér frá fallsæti.