Óskar Hrafn: Bilun í tölvukerfinu

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks. mb.is/Kristinn Steinn

„Mér fannst leikurinn spilast þannig að úrslitin gefa ekki rétta mynd af leiknum og við hefðum átt að fá meira út úr honum en þetta var bara vel gert hjá Víkingum, þeir eru að verða Íslandsmeistarar og ég óska þeim til hamingju með það,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks eftir 5:3 tap fyrir Víkingum þegar liðin mættust í Víkinni í kvöld er leikið var í 21. umferð efstu deildar karla í fótbolta.

„Við erum hinsvegar á allt annarri leið eftir öðrum vegi þetta sumarið og við þurfum bara að sætta okkur við að við sækjum ekki Íslandsmeistaratitilinn á þessu ári en það er annað stórt fyrir okkur að berjast fyrir.“

Stærsti leikur sem Óskar Hrafn hefur tekið þátt í

Óskar Hrafn og hans lið búa sig undir mikilvægan leik gegn Struga frá Norður-Makedóníu á Kópavogsvelli á fimmtudaginn um að komast í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu en Blikar unnu fyrri leikinn 1:0 ytra og gætu orðið fyrsta íslenska karlaliðið til að ná svo langt en segir þjálfarinn þetta stóran leik fyrir hann sjálfan.  „Ég myndi halda, þó maður reyni að tala niður mikilvægi hans og halda spennustiginu réttu, þá sé hann í það minnsta risastór og með þeim stærstu sem ég hef tekið þátt í.“

Bilun í tölvukerfi og vildi eyða meiri tíma í Kópavogsvelli

Mikla athygli vakti að Breiðablik skilaði ekki inn leikskýrslu klukkustund fyrir leik og venjan er og mættu einnig beint af Kópavogsvelli rétt fyrir leik og fóru beint inná völl.  „Ég veit ekki af hverju leikskýrslan skilaði sér seint, það hlýtur að vera bilun í tölvukerfinu og virðist hafa komið fyrir áður í sumar hjá öðrum liðum svo ég get ekki svarað því og  við ákváðum að eyða meiri tíma í Kópavoginum fyrir leikinn og pælingin er ekkert dýpri en það,“ sagði þjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert