KR vann Fylki 2:0 í 21. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Fyrir leikinn voru KR-ingar í 6 sæti deildarinnar með 28 stig, þremur stigum meira en KA og gátu með sigri farið langleiðina með að tryggja sig í efri hluta deildarinnar áður en henni verður skipt í lok 22. umferðar.
Á sama tíma var Fylkir þremur stigum frá fallsæti og gat með sigri komið sér í þægilega stöðu í fallbaráttunni í neðri hlutanum.
KR-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og sóttu hart á leikmenn Fylkis allan fyrri hálfleikinn. KR-ingar voru alltaf hársbreidd frá því að komist í dauðafæri en alltaf vantaði eina snertingu upp á. Á 22. mínútu meiddist Kristján Flóki Finnbogason og þurfti hann að fara útaf. Í hans stað kom inn á hinn hraðskreiði Luke Rae.
Besta færi fyrri hálfleiks kom á 24. mínútu þegar Luke Rae sólaði upp allan völlinn og sendi boltann yfir teiginn á Stefán Árna Geirsson sem skallaði fast að marki Fylikis en þar var Ólafur Kristófer í markinu og varði vel. Fylkismenn náðu nokkrum fínum sóknum en engin þeirra skilaði árangri.
Á 45. mínútu fengu KR-ingar aukaspyrnu fyrir utan teig. Kristinn Jónsson tók spyrnuna og leit skot hans út fyrir að vera sending sem endaði þó í bláhorninu og fóru KR með verðskuldaða 1:0 forystu til hálfleiks.
Síðari hálfleikur hófst á rauðu spjaldi. Aron Snær Friðriksson tók boltann upp fyrir utan teig og Jóhann Ingi gat ekkert annað gert en að gefa beint rautt spjald og dæma aukaspyrnu. KR tóku þá Stefán Árna Geirsson af velli og inn á kom Simen Lillevik Kjellevold. Við þetta breyttist leikurinn og Fylkismenn fóru að sækja meira, manni fleiri.
Fylkismenn lágu mjög þungt á liði KR nánast allan síðari hálfleikinn og sóttu án afláts.
Það var þó á 84. mínútu leiksins sem að KR-ingar komust í skyndisókn og Kristinn Jónsson gaf boltann á Sigurð Bjart Hallsson sem lék á Ólaf Kristófer í marki Fylkis og setti boltann í autt netið.
Liðin skiptust á að sækja eftir þetta en tækifærin til að skora buðust ekki og lauk leiknum því með 2:0 sigri KR sem eru komnir í fína stöðu í 6 sæti deildarinnar með 31 stig eftir 21 leik og geta með jafntefli gegn ÍBV í eyjum í lokaleiknum tryggt sæti sitt í efri hlutanum á meðan Fylkismenn þurfa helst að sækja stig til að vera alveg öruggir með sæti sitt í deild þeirra bestu.