Klara tjáir sig um ákvörðun KSÍ

Viktor Karl Einarsson og Vilhjálmur Alvar Þórarinsson ræða saman í …
Viktor Karl Einarsson og Vilhjálmur Alvar Þórarinsson ræða saman í stórleiknum í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

Klara Bjartmartz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, hefur tjáð sig um þá ákvörðun stjórnar KSÍ að fresta ekki leik Víkings úr Reykjavík og Breiðabliks í Bestu deild karla sem fram fór í Fossvoginum í gær.

Leiknum lauk með sigri Víkings, 5:3, en Blikar höfðu tvívegis farið fram á það að leiknum yrði frestað vegna þátttöku liðsins í 4. umferð Sambandsdeildar UEFA. 

Breiðablik leiðir með einu marki gegn engu eftir fyrri leik sinn gegn Struga frá Norður-Makedóníu en síðari leikurinn fer fram á Kópavogsvelli á fimmtudaginn og með sigri á fimmtudaginn tryggja Blikar sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Skilur pirring Blika

Blikar mættu seint til leiks í Víkina í gær og þá tóku þeir sér góðan tíma í það að fylla út leikskýrsluna fyrir leik gærdagsins.

„Ég ætla ekki að tjá mig um mína persónulegu skoðun á þessu máli en þetta gerir auðvitað þeim sem starfa við leikinn erfiðara fyrir,“ sagði Klara í samtali við 433.is.

„Ég skil það og auðvitað hefðum við viljað hjálpa en það var ekki hægt að færa leikinn,“ sagði Klara svo þegar hún var spurð að því hvort hún skildi pirringinn innan herbúða Breiðabliks.

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka