Merkið til stuðnings konum

Marta Perarnau, Beatriz Parra og Laufey Harpa Halldórsdóttir fagna marki …
Marta Perarnau, Beatriz Parra og Laufey Harpa Halldórsdóttir fagna marki í leik með Tindastóli fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eyþór Árnason

Spænsku knattspyrnukonurnar Marta Perarnau og Beatriz Parra, leikmenn Tindastóls, hafa lýst yfir stuðningi við heimsmeistara Spánar í knattspyrnu kvenna vegna framkomu Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins eftir úrslitaleikinn í Sydney í Ástralíu fyrir rúmri viku.

Feykir greinir frá því að Marta og Beatriz hafi óskað eftir því við blaðamann miðilsins eftir markalaust jafntefli liðsins við Þór/KA í Bestu deildinni í gær að hann tæki mynd af þeim með höndina fyrir munni þeirra.

„Þetta merki er krafa um kvenréttindi, sett fram í kjölfar þess sem gerðist á úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna. Leikmaður spænska kvennalandsliðsins sem varð heimsmeistari, Jennifer Hermoso, varð fyrir líkamlegri áreitni af hendi forseta spænska knattspyrnusambandsins,“ útskýrði Marta í samtali við Feyki.

Allir 23 leikmenn heimsmeistara Spánar ásamt tugum fleiri leikmanna á hæsta stigi hafa lýst því yfir að ekki kom til greina að spila fyrir landsliðið nema Rubiales segi af sér, sem honum hefur ekki þótt ástæða til að gera.

„Allur kvennafótboltaheimurinn hefur komið fram til stuðnings Jennifer og öllum þeim konum sem verða fyrir kynferðislegum árásum og misnotkun eða áreitni. Og í dag tók allt kvennalið Tindastóls undir þetta málefni,“ bætti Marta við.

Rubiales kyssti sem kunnugt er Hermoso á munninn í hennar óþökk og greip einnig um klof sitt þegar sigurinn hjá spænska kvennalandsliðinu gegn því enska var í höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert