Elfar sá um FH-inga

Ívar Örn Árnason úr KA og Grétar Snær Gunnarsson hjá …
Ívar Örn Árnason úr KA og Grétar Snær Gunnarsson hjá FH eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KA vann í kvöld 3:0-útisigur á FH í Bestu deild karla í fótbolta á Kaplakrikavelli.

FH-ingar freistuðu þess að styrkja stöðu sína í baráttunni um sæti í Evrópukeppni og voru sannarlega fullir sjálfstraust þegar þeir mættu til leiks enda höfðu þeir unnið gríðarlega sterkan sigur á Val á heimavelli, 3:2, í síðustu umferð.

KA-menn voru einnig kokhraustir og tilbúnir að sækja til sigurs eftir öflugan 2:1-sigur á Stjörnunni á heimavelli í síðustu umferð þar sem að þeir voru manni færri frá 77. mínútu. KA þurfti að vinna þennan leik og næsta leik til að eiga möguleika á að vera í efri hlutanum þegar deildinni lýkur eftir næstu umferð og úrslitakeppnin fer í gang.

Það var frítt á völlinn og tæplega þúsund manns létu sjá sig í Kaplakrikanum í kvöld.

FH byrjaði leikinn vel og sótti af krafti en KA-menn áttu sínar rispur og þeir voru vel skipulagðir aftast.

Fyrsta alvöru færi leiksins kom á 8. mínútu. Heimamenn voru þá í hörkusókn og eftir bras á KA-mönnum þar sem Kristijan Jajalo, markmaður KA, var kominn utarlega í teignum þá átti Arnór Borg Guðjohnsen sendingu fram hjá Jajalo á Kjartan Henry Finnbogason sem átti skot að marki en Hrannar Björn Steingrímsson, varnarmaður KA, var réttur maður á réttum stað og bjargaði á línu. Dauðafæri hjá FH!

Á 23. mínútu áttu KA-menn hornspyrnu. Daníel Hafsteinsson sendi boltann inn í teiginn, Dusan Brkovic skallaði boltann frá nærstöng yfir á fjær þar sem Ívar Örn Árnason var í baráttunni en heimamenn náðu svo að hreinsa.

Fjórum mínútum síðar fengu FH-ingar góða sókn. Boltinn kom inn í teig frá vinstri þar sem Davíð Snær Jóhannsson sendi boltann á Gyrði Hrafn Guðbrandsson sem var í hörkufæri og átti skot sem Jajalo varði.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 30. mínútu. Ásgeir Sigurgeirsson fékk boltann og hljóp upp að D-boganum við vítateig FH. Hann sendi boltann til hægri á Jóan Símun Edmundsson, sem kom á hlaupinu inn í teiginn, og Færeyingurinn kláraði færið á fagmannlegan hátt fram hjá Daða Frey í marki FH. 1:0 fyrir KA.

Á þriðju mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks áttu KA-menn aukaspyrnu rétt utan vítateigs FH. Boltinn var skallaður frá en Harley Willard átti svo háa sendingu frá hægri, rétt utan vítateigs, á fjærstöngina á Elfar Árna Aðalsteinsson sem var einn og óvaldaður og Elfar hoppaði jafnfætis í loftið og skoraði með innanfótarskoti á lofti í stöngina fjær og inn.

Staðan var allt í einu orðin 2:0 fyrir Norðanmenn sem var mjög vænleg staða til að fara með inn í hálfleikinn. FH-ingar voru þó að spila vel svo það komi fram og voru ógnandi en náðu ekki að nýta sóknarstöður sínar nógu vel.

Maður átti von á heimamönnum dýrvitlausum inn í seinni hálfleikinn enda gjörsamlega með bakið upp við vegginn. Þeir sóttu en án þess að skapa sér nægilega góð færi.

Á tíundu mínútu seinni hálfleiks barst boltinn á Hallgrím Mar Steingrímsson, sem kom inn á hjá KA í hálfleik. Hallgrímur var við D-bogann á vítateig FH og átti sendingu til vinstri á Elfar Árna sem var við vítateigshornið.

Elfar tók sér góðan tíma og smurði hreinlega boltanum upp í vinkilinn. Svo sannarlega eitt af mörkum tímabilsins! 3:0 fyrir KA eftir 55. mínútur og ég verð að segja að maður var frekar undrandi því þetta er með jafnari 3:0-leikjum sem maður hefur séð!

En þetta var verðskuldað hjá heimamönnum. Eftir þriðja markið hjá KA þyngdist róðurinn hjá heimamönnum og þeir áttu sín færi og voru þeir Vuk Oskar Dimitrijevic, Arnór Borg Guðjohnsen og Davíð Snær Jóhannsson mjög hættulegir í sóknarlotum FH.

Besta færið í seinni hálfleik hjá heimamönnum átti Vuk Oskar á 71. mínútu þegar hann átti hörkuskot á nærstöng en Jajalo varði í horn.

Leikurinn fjaraði svo hægt og rólega út og KA-menn sigldu stigunum þremur í höfn. Virkilega sterkur sigur hjá KA-mönnum og þeir halda áfram sinni vegferð í átt að topp sex. Liðið er nú með 28 stig og í sjöunda sæti. FH er sem fyrr í fimmta með 31 stig.

Nú hafa öll liðin í deildinni lokið 21 leik og aðeins lokaumferðin er eftir áður en deildinni verður skipt upp. FH leikur sinn síðasta leik í deildinni gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli og KA heimsækir Fylki í Árbæinn.

FH 0:3 KA opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er 4 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert