Breiðablik í sögubækurnar

Leikmenn Breiðabliks fagna sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í leikslok.
Leikmenn Breiðabliks fagna sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Karl Einarsson reyndist hetja Breiðabliks þegar liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu með sigri gegn Struga frá Norður-Makedóníu í síðari leik liðanna á Kópavogsvelli í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Breiðabliks en Viktor Karl skoraði sigurmark leiksins strax á 3. mínútu.

Leikmenn Breiðablik fengu sannkallaða draumabyrjun þegar Viktor Karl Einarsson skoraði þegar aðeins rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leiknum og staðan orðin 1:0 í og samtals 2:0 í einvíginu.

Leikurinn róaðist strax í kjölfarið og gerðist lítið þangað til á 32. mínútu þegar Viktor Karl komst í sannkallað dauðafæri þegar hann komst einn gegn markverði Struga sem varði skot Viktors.

Breiðablik voru miklu frískari í fyrri hálfleik og hefðu hæglega getað skorað tvö til þrjú mörk í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik 1:0.

Síðari hálfleikur var aðeins jafnari framan af. Á 55. mínútu komst Anton Logi í dauðafæri þegar Jason Daði renndi boltanum inn fyrir vörn Struga en Anton skaut framhjá. Í kjölfarið fengu leikmenn Breiðablik þrjár hornspyrnur í röð sem skiluðu engu. Lítið markvert gerðist þangað til á 78. mínútu þegar leikmenn Struga fengu nokkur fín hálffæri.

Lítið annað markvert gerðist í leiknum og unnu leikmenn Breiðabliks frækinn sigur á Struga 1:0 og einvígið samtals 2:0.

Þetta þýðir að Breiðablik er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu og leika því sex leiki í riðlakeppninni í vetur. Dregið verður í riðlana á morgun.

Það verður áhugavert að sjá og þá líka í ljósi þess að Breiðablik getur ekki spilað heimaleikina á Kópavogsvelli þar sem  hann er ekki löglegur í Sambandsdeildinni. Glæsilegur árangur hjá Breiðabliki sem er fyrsta íslenska karlaliðið til að komast í riðlakeppni í Evrópu.

Viktor Karl Einarsson fagnar fyrsta marki leiksins.
Viktor Karl Einarsson fagnar fyrsta marki leiksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Breiðablik 1:0 Struga opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við venjulegan leiktíma. Blikar eru hársbreidd frá því að landa þessu!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert