„Ég veit að Brynjar vill hitta kærustuna sína“

Oliver Sigurjónsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld.
Oliver Sigurjónsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gísli Eyjólfsson var hálfklökkur þegar mbl.is náði tali af honum eftir glæsilegan sigur sem tryggði Breiðablik farseðilinn í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu nú í kvöld.

„Ég átta mig ekki á því hvað þetta er stórt. Það var auðveldara að vinna Íslandsmeistaratitilinn því það hafði verið gert áður en það hefur ekkert íslenskt karlalið komist svona langt í Evrópu þannig að þetta er frekar óraunverulegt því þetta var miklu langsóttara.”

Var erfitt að undirbúa sig fyrir þennan leik?

„Nei, það var mjög auðvelt. Þetta var mikill fiðringur og það voru öll ljós kveikt og það þurfti ekki mikið til að hvetja okkur fyrir leikinn. Óskar gat því í rauninni sparað peppræðuna fyrir einhvern annan leik.”

Gekk allt upp í dag?

„Þetta snýst bara um að vera trúr sjálfum sér. Við spiluðum okkar bolta, við skiptum ekki um aðferð, hvorki í aðdraganda né í leiknum sjálfum. Það gekk mjög vel.”

Hvernig verður framhaldið?

„Nú þurfum við að klára þessa deild með sæmd og tryggja það að við verðum í þessari Evrópukeppni á næsta ári líka. Það skiptir mjög miklu máli.”

Á að fagna í kvöld?

„Ég er að vonast eftir alla vega einum köldum og svo á morgun undirbúum við okkur bara fyrir sunnudaginn.”

Ertu með óskamótherja í riðlakeppninni?

„Ég veit að Brynjar vill hitta kærustuna sína þannig að ég veit að það væri geðveikt fyrir hann ef við fengjum Fiorentina og svo myndi England ekki skemma fyrir heldur,” sagði Gísli sæll og glaður við mbl.is í kvöld.

Brynjar Atli Bragason, markvörður Breiðabliks, er í sambandi með Alexöndru …
Brynjar Atli Bragason, markvörður Breiðabliks, er í sambandi með Alexöndru Jóhannsdóttur leikmanni Fiorentina. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert