Vorum alls ekki góðir

Kristófer Kristinsson með boltann í dag.
Kristófer Kristinsson með boltann í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Mér fannst við vera á eftir allan leikinn,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks í samtali við mbl.is, eftir 0:2 tap á heimavelli gegn FH í lokaumferð Bestu deildarinnar í fótbolta í dag.

Liðin voru nokkuð jöfn í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik voru FH-ingar betri og sköpuðu sér fleiri og hættulegri færi. Þeir náðu marki á 53. mínútu með skalla Kjartans Henry Finnbogasonar og það má segja að Blikar hafi ekki náði að skapa sér almennileg færi fyrr en í blálokin en svo kláruðu FH-ingar leikinn með marki Ettu Mömmö, 2:0

„Mér fannst FH-ingar ekkert betri í seinni hálfleik heldur en þeir voru í fyrri hálfleik. Mér fannst þeir sterkari aðilinn allan leikinn. Þeir voru hættulegri í seinni hálfleik en við vorum alls ekki góðir í þessum leik og við fengum það sem við áttum skilið sem var nákvæmlega ekki neitt. Þetta var fyllilega sanngjarn sigur hjá FH.“

Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson mbl.is/Eyþór Árnason

Nú er búið að skipta deildinni, sem fer aftur af stað eftir tvær vikur og svo er fyrsti leikur í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar 21. september í Ísrael. Hvernig horfa næstu leikir fyrir Óskari og hvernig er að undirbúa liðið fyrir þessar tvær keppnir?

„Við þurfum að sinna báðum þessum keppnum af þeirri virðingu sem þær eiga skilið. Það verður keyrsla þangað til að mótið klárast 8. október og við verðum að keyra á þetta og ná í eins mörg stig og við getum.

Við fáum FH strax í fyrsta leik í efri hlutanum (á Kópavogsvelli 16. september) og það verður kærkomið tækifæri til að svara fyrir þennan leik. Það byrjar þarna og svo tökum við einn leik fyrir í einu,“ sagði Óskar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert