Förum ekki að grenja og gefast upp

Agla María Albertsdóttir í hasar í kvöld.
Agla María Albertsdóttir í hasar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnleifur Gunnleifsson var að stýra sínum fyrsta leik sem einn af þjálfurum Breiðabliks þegar liðið tapaði 4:0 fyrir Þrótti í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Gunnleifur hafði þetta að segja um úrslitin í kvöld:

„Stelpurnar lögðu sig fram og voru frábærar fyrstu 30 mínúturnar. Við náðum ekki að skora og svo er það eins og gerist í fótbolta að við förum með hausinn niður í stöðunni 2:0 og Þróttur spilaði flottan bolta og refsaði okkur fyrir að vera með hangandi haus. Það hefur mikið gengið á. Þjálfaraskipti og við töpum bikarúrslitaleik. Það er erfitt að byggja upp sjálfstraustið eftir slíkt.”

Breiðablik er enn þá í öðru sæti þrátt fyrir þetta tap en eins og mætur maður í annarri íþrótt sagði eitt sinn: „Það er alltaf stutt í kúkinn“. Hvernig ætla Blikakonur að ná sér upp úr þessari lægð?

„Það er okkar að finna út úr því. Það er rúm vika í næsta leik hjá okkur fyrir norðan. Við ætlum ekki að fara að vorkenna okkur. Við töpuðum fótboltaleik og Þróttur átti skilið að vinna þennan leik. Svona er bara fótboltinn. Þú tapar og þú vinnur. Við förum ekki að grenja og gefast upp. Það er bara næsti leikur og það er Þór/KA,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert