Breiðablik og Þróttur áttust við í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar Kvenna í knattspyrnu í kvöld og lauk leiknum með sigri Þróttar, 4:0. Fyrir leikinn þurfti Þróttur nauðsynlega á sigri að halda til að halda möguleikanum á Meistaradeildarsæti opnum. Breiðablik hafði það eina markmið að verja stöðu sína í öðru sæti deildarinnar.
Leikurinn hófst rólega og þurfti að stöðva leikinn strax á annari mínútu þegar Birta Georgsdóttir fékk högg og þurfti aðhlynningu sem tók talsverðan tíma. Hún gat þó haldið leiknum áfram og fóru Blikakonur hægt og rólega að ná tökum á leiknum og sóttu oft á tíðum mjög þungt á vörn Þróttar sem stóðst þó hvert áhlaupið á fætur öðru.
Breiðablik fékk fjöldan allan af hornspyrnun í fyrri hálfleik og voru oft á tíðum mjög nálægt því að skora en inn vildi boltinn ekki. Það var svo algjörlega gegn gangi leiksins sem að Þróttarakonur skoruðu með glæsilegu skallamarki og var þar á ferðinni Katie Cousins á 44 mínútu. Fleira gerðist ekki í fyrri hálfleik og fór Þróttur með 1:0 forystu í hálfleikinn.
Blikar gerðu skiptingu í hálfleik þegar Birta Georgsdóttir fór af velli og Linli Tu kom inn á í hennar stað. Það breytti því ekki að Þróttur skoraði strax í upphafi síðari hálfleiks. Þar var að verki Katla Tryggvadóttir sem fékk fallega sendingu frá Ingunni Haraldsdóttur. Staðan orðin 2:0 fyrir Þrótti og vonir um Meistaradeildarsæti lifa góðu lífi.
Á 63. mínútu kom líklega eitt af mörkum sumarsins þegar Tanya Boychuk fékk sending frá Maríu Evu og hamraði boltanum frá vítateigslínunni upp í vinkilinn.
Þróttarar voru ekki hættir því Cousins skoraði annað mark sitt og fjórða mark Þróttara á 69. mínútu eftir misheppnaða hreinsun hjá Breiðabliki. Það má því segja að það hafi algjörlega nýtt Þróttara lið komið inn í síðari hálfleikinn því Þróttarakonur voru miklu betri en Breiðablik á öllum sviðum leiksins og sóttu án afláts allan hálfleikinn. Þróttur uppskar því sanngjarnan 4:0 sigur.
Þróttur er áfram í fjórða sætinu með 31 stig, aðeins stigi á eftir Stjörnunni sem er í þriðja sætinu. Breiðablik er áfram í öðru sæti deildarinnar með 34 stig, 11 stigum á eftir Val. Það eru aðeins 12 stig eftir í pottinum og því má segja að Valskonur séu með níu og hálfan fingur á Íslandsmeistaratitlinum.