Mikilvægt eftir hörmungarnar í Lúxemborg

Alfreð Finnbogason og Guðlaugur Victor Pálsson fagna í leikslok.
Alfreð Finnbogason og Guðlaugur Victor Pálsson fagna í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin var meiriháttar. Við vorum búnir að vera að ógna þeim nokkrum sinnum þarna á undan en að Alfreð hafi náð að setja hann inn var náttúrlega bara geggjað,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, miðvörður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu eftir dramatískan 1:0-sigur á Bosníu og Hersegóvínu í undankeppni EM 2024 í kvöld.

Alfreð Finnbogason skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

„Við áttum það líka bara skilið í endann fannst mér. Við spiluðum vel, varnarlega sem sóknarlega. Það var æðislegt og mikilvægt fyrir okkur eftir hörmungarnar í Lúxemborg,“ sagði Guðlaugur Victor í samtali við mbl.is.

Fórum yfir svo mikið

Spurður hvað hafi verið farið yfir eftir vont 3:1-tap fyrir Lúxemborg á föstudagskvöld og fyrir leik kvöldsins sagði hann:

„Við fórum yfir svo mikið. Það var margt sem fór úrskeiðis í Lúxemborg og við fórum yfir bæði varnarleikinn, einstaklingsmistökin sem kostuðu okkur leikinn og sóknarleikinn og svo framvegis. Það var einhvern veginn allt.

Líka bara þetta með að þegar maður lendir undir snemma að þá þurfi ekki allt að fara í panikk og að fara í þann ham að reyna að lifa af. Að vera bara slakir og halda okkur við leikplanið. Þetta var virkilega jákvætt í dag.“

„Ég myndi aldrei standa hér og segja að við ættum ekki gagnrýnina skilið, við áttum hana fullkomlega skilið. Það er bara svo einfalt. En auðvitað er það rosalega mikilvægt fyrir okkur að svara þeim röddum með frammistöðu eins og í dag og hafa náð að klára Bosníu hérna heima,“ sagði Guðlaugur Victor að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert