Valur meistari án þess að spila

Heimakonur fagna fyrsta marki leiksins.
Heimakonur fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Einn leikur fór fram í efri hluta Bestu-deild kvenna í dag. Þór/KA og Breiðablik hófu leik kl. 16.45 í fínasta haustveðri á Akureyri. Blikar eru aðallega í baráttu um 2. sætið í deildinni en áttu þó enn agnarsmáan möguleika á Íslandsmeistaratitlinum þegar flautað var til leiks.

Þór/KA var í 6. sæti fyrir leik en liðið ætlar eflaust að klifra hærra. Líklega voru það leikmenn Vals sem voru hvað spenntastir fyrir þessum leik. Staðan í deildinni var nefnilega þannig að Valur yrði Íslandsmeistari í leikslok ef Blikum myndi mistakast að vinna leikinn. Fór einmitt svo því Þór/KA vann leikinn 3:2, með sigurmarki í uppbótatíma.

Upphafskafli leiksins var einn sá fjörugasti sem boðið hefur verið upp á lengi á Þórsvellinum. Bæði lið sóttu sér færi og nokkur þeirra voru algjör dauðafæri. Leikmönnum voru þó mislagðir fætur og hittu illa á markrammann. Ekkert mark var því komið undir lok fyrri hálfleiks, sem virtist ætla að vera markalaus.

Heimakonur skerptu sinn leik á lokakaflanum og náðu loks inn marki. Hulda Ósk Jónsdóttir hafði verið að valda Blikum vandræðum og hún lagði upp markið. Átti hún góða sendingu inn á markteig frá endamörkunum hægra megin. Karen María Sigurgeirsdóttir kom á fljúgandi ferð inn í teig og stangaði boltann örugglega í markið. Markið kom á 45. mínútu og gaf Þór/KA 1:0 forskot inn í klefa í hálfleik.

Strax í byrjun seinni hálfleiks kom Sandra María Jessen Þór/KA í 2:0 en skömmu síðar fékk Breiðablik víti. Agla María Albertsdóttir skoraði úr vítinu.

Staðan var orðin 2:1 og var mikið líf í leiknum. Heimakonur voru töluvert áræðnari og hættulegri eftir mark Blika og hefðu hæglega getað bætt við marki. Nokkur færi fóru í súginn áður en Blikar komu sér betur inn í leikinn.

Agla María Albertsdóttir jafnaði í 2:2 þegar kortér lifði og kom það mark eins og þruma úr heiðskíru lofti. Agla María lét bara vaða á markið af löngu færi og sendi boltann í slá og inn.

Skiptust liðin á að sækja á lokakaflanum og virtust Blikar líklegri til að skora sigurmark. Það var hins vegar Þór/KA sem gerði það í uppbótartíma. Var það Una Móeiður Hlynsdóttir sem afgreiddi boltann í markið eftir klafs á vítateig Breiðabliks.

Í heildina var Þór/KA að spila betur en Breiðablik og var sigur norðankvenna sanngjarn. Valskonur gátu líka fagnað í leikslok en þær eru orðnar Íslandsmeistarar, þrátt fyrir að eiga fjóra leiki eftir í mótinu.

Þór/KA 3:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Katrín Ásbjörnsdóttir (Breiðablik) á skot yfir Ekki gott færi en Katrín nær alltaf að teygja sig í boltann og koma honum að marki. Þessi fór yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert