„Við verðum bara í fýlu í kvöld“

Gunnleifur Gunnleifsson á hliðarlínunni í kvöld.
Gunnleifur Gunnleifsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Gunnleifur Gunnleifsson er í miklu brasi sem þjálfari Breiðabliks í Bestu-deild kvenna í fótbolta. Lið hans sótti ekki gull í greipar Þórs/KA í kvöld og tapaði 3:2 í spennandi leik á Þórsvellinum á Akureyri.

Var þetta fjórða tap Breiðabliks í deildinni í síðustu fimm leikjum og hefur liðið aðeins nælt sér í eitt stig í þeim. Valur hefur varla stigið feilspor á meðan og úrslitin í kvöld tryggðu Valskonum Íslandsmeistaratitilinn. Valur á enn fjóra leiki eftir og spilar gegn Stjörnunni á morgun.

„Við vorum ekki að spila neitt sérstaklega vel en samt er þetta ógurlega sárt,“ sagði Gunnleifur skömmu eftir leik. „Lið Þórs/KA var betra liðið, svona lengstum. Í stöðunni 2:0 þá náðum við að grafa djúpt og komum til baka. Það er mjög jákvætt og andstætt því sem gerðist í síðasta leik þegar við bara gáfum meira eftir í stöðunni 2:0.“

Breiðablik tapaði einmitt 0:4 gegn Þrótti í síðustu umferð og það á heimavelli sínum.

Telma Ívarsdóttir og Elín Helena Karlsdóttir í hasar í kvöld.
Telma Ívarsdóttir og Elín Helena Karlsdóttir í hasar í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Í stöðunni 2:2 vorum við að leita eftir sigurmarki og vorum líklegra liðið til að skora. Það má alveg vinna ljótt og við vorum að reyna það þar sem við fundum ekki taktinn í uppspilinu hjá okkur. Svo kom mark frá Þór/KA eftir aukaspyrnu og klafs í teignum. Það var ógeðslega fúlt. Við verðum bara í fýlu í kvöld en svo er mikilvægur leikur á sunnudaginn gegn Stjörnunni og við verðum að gera liðið klárt í þann leik.“

Lítil stigasöfnun Breiðabliks upp á síðkastið hefur gefið hinum liðunum færi á að hrifsa 2. sætið úr höndum þeirra og eru Stjarnan og Þróttur að hugsa sér gott til glóðarinnar. Sæti í Evrópukeppni er í húfi og Breiðablik verður bara að fara að næla sér í stig. Hvað sér Gunnleifur fyrir sér í lokaleikjunum þremur.

„Við þurfum bara að ná í úrslit. Það var ýmislegt jákvætt hjá okkur í þessum leik. Við þurfum að þétta varnarleikinn. Það er allt of mikið að fá á sig sjö mörk í tveimur leikjum. Þetta eru geggjaðar stelpur sem ég er með og góðar í fótbolta. Við höldum bara áfram og þið eigið eftir að sjá hörkulið á sunnudaginn.“

Það verður engin tilraunastarfsemi í lokaleikjunum þremur, enda mikið í húfi.

„Nei, við erum ekkert að fara að breyta miklu, bara reyna að fá hlutina til að smella betur og virka betur. Það var kraftur í ungu leikmönnunum sem komu inn á í dag og ég er alveg óhræddur við að breyta ef mér finnst ég þurfa þess. Okkur þjálfurunum er treyst fyrir þessu. Við gerum það sem við getum til að ná í úrslit. Það verður engin tilraunastarfsemi. Það kemur hlé eftir Stjörnuleikinn og þá verður kannski hægt að vinna í einhverjum hlutum. Við ætlum bara á fulla ferð áfram,“ sagði Gunnleifur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka