„Ég er svolítið svekkt með þennan leik. Við sýndum ekki alveg okkar bestu hliðar,“ sagði Lára Kristín Pedersen, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 0:1-tap liðsins gegn Stjörnunni í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.
Valur varð Íslandsmeistari í gær, þrátt fyrir að liðið hafi þá átt fjóra leiki eftir. Lára sagði það ekki hafa haft áhrif á leikinn í kvöld.
„Ég nenni ekki að tala um að það hafi verið erfitt að gíra sig upp í þennan leik. Við ætlum ekki að skýla okkur á bak við það,“ sagði hún og hélt áfram:
„Þetta voru skrítnar aðstæður og við vorum ekki búnar að plana neitt. Við vorum flestar frekar rólegar held ég. Þetta er það sem við erum búnar að vera að stefna að í allt sumar og það er mjög ánægjulegt að þetta sé komið,“ sagði hún.
Valur er einnig Íslandsmeistari í handbolta og körfubolta í kvennaflokki og eru allar Valskonur því afar sigursælar árið 2023.
„Þetta er umhverfi sem við viljum vera í og umhverfi sem við erum búnar að skapa síðustu árin. Það er gaman að geta hvatt hverja aðra áfram. Það er gaman að hvað gengur vel í öllum boltagreinunum og við erum öll á sama stað á Hlíðarenda. Það skiptir máli. Það var eitt af því sem heillaði mig við að koma í Val,“ sagði Lára.