„Það er leiðinlegt að tapa fyrsta leik eftir að við unnum titilinn, en við erum Íslandsmeistarar og við fögnum núna,“ sagði Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður Vals, eftir 0:1-tap liðsins gegn Stjörnunni í kvöld.
Fanney verður fljót að jafna sig á tapinu því Valur varð Íslandsmeistari í gær, þar sem Breiðabliki mistókst að vinna Þór/KA á útivelli.
„Við vorum nokkrar saman inn í klefa og horfðum á leikinn. Við fögnuðum þessu saman. Mér leið mjög vel og tilfinningin var ótrúleg, þótt það sé eflaust skemmtilegra að vinna þetta sjálfar. Þetta er svolítið skrítið og maður hefur ekki alveg náð að meðtaka þetta,“ sagði Fanney.
Hún er uppalin hjá Val og hlakkar til að setja nýtt ártal í anddyrið á Hlíðarenda, þar sem félagið sýnir stolt þá Íslands- og bikarmeistaratitla sem það hefur unnið til. „Það er ótrúlega skemmtilegt og mikið stolt sem fylgir því að vinna með uppeldisfélaginu. Það er gaman að setja nýtt ártal á vegginn í anddyrinu.“
Þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gömul hefur Fanney nánast spilað hverja einustu mínútu á tímabilinu og hún er sátt við leiktíðina hingað til. „Pétur hefur verið mjög skýr með að ég fengi traustið. Ég hef náð að sinna mínu og mér finnst frammistaðan vera það góð að ég á skilið að spila,“ sagði hún með sjálfstraustið í lagi.
Ekki er langt síðan að Valur var í öðru sæti og í mikilli baráttu við Breiðablik. Síðan þá hefur Breiðablik aðeins fengið eitt stig úr fimm leikjum. „Það kom mér á óvart hvað þetta hrundi hjá þeim og hvað þessi bikarúrslitaleikur fór illa í þær. Það er flott fyrir okkur að geta tryggt þetta svona snemma.“
Valskonan unga er ánægð með sigurhefðina hjá Val, en kvennalið félagsins í handbolta og körfubolta eru einnig Íslandsmeistarar í sínum greinum. „Það er ótrúlega mikil fagmennska sem ríkir innan félagsins. Það stefna allir að því að vinna. Við erum öll titlaóð. Það er frábært að geta sýnt í öllum íþróttum hvað við erum góð.“
Valsliðið er nýkomið heim frá Albaníu, þar sem liðið lék í 1. umferð Meistaradeildarinnar. Fram undan er 2. umferðin og leikir í deildinni hér heima. Það gefst því lítill tími til að sletta úr klaufunum. „Við erum að fara að borða saman í Fjósinu núna, en ég veit ekki hvað við náum að fagna. Það er leikur á sunnudaginn,“ sagði Fanney.