„Þetta leggst rosalega vel í okkur. Við erum ótrúlega spenntir og okkur langar að halda áfram að skrifa söguna,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi KSÍ fyrir bikarúrslitaleik karla í knattspyrnu.
„Við höfum aldrei unnið bikarinn og viljum koma hérna og taka hann eftir að hafa upplifað ýmislegt í sumar.
Evrópukeppnin var náttúrlega ótrúlega skemmtilegt ævintýri þar sem við gátum glatt mörg KA-hjörtu og við ætlum að reyna að gera það aftur á laugardaginn,“ hélt hann áfram.
Ríkjandi bikarmeistarar Víkings eru andstæðingar KA-manna á laugardag og hefst leikurinn klukkan 16 á Laugardalsvelli.
Þrátt fyrir að KA hafi aldrei orðið bikarmeistari hefur liðið áður komist í bikarúrslitaleiki en tapað öllum þremur, árin 1992, 2001 og 2004. Hallgrímur sagði enga aukalega pressu fylgja því að reyna að bæta upp fyrir sár töp fortíðarinnar.
„Nei, ég held að það hafi nú enginn leikmaður verið í þessum leikjum þannig að það er ekki þannig. Það eru kannski einhverjir áhorfendur sem vonast til að upplifa gleðina en ekki vonbrigðin. Við gerum allt til þess að tryggja það að þau eigi frábæran dag á laugardag.“
Hvað þarf KA að gera til þess að skáka Víkingi?
„Víkingar eru mjög sterkir. Við verðum að eiga góðan leik, það er alveg klárt. Ég tel að það hafi hjálpað okkur rosalega mikið að hafa spilað marga stóra leiki í sumar, þar sem er mikið undir, og til dæmis spilað á Laugardalsvelli. Að við séum ekki að koma í fyrsta skiptið hérna,“ sagði Húsvíkingurinn.
Spáð eru slæmu veðri á laugardag þegar leikurinn fer fram, rigningu og vindi upp á tíu metra á sekúndu.
„Svo þurfum við að mæta þeim líkamlega. Það verður þannig veður að þetta verður ekki tiki-taka fótbolti, þetta verður öðruvísi fótbolti. Við þurfum bara að mæta og verðum undirbúnir fyrir það. Svo er að þora að vinna, þú þarft að þora að vinna.
Þú þarft að þora að spila boltanum á réttum tíma, þú þarft að þora að tapa boltanum, þú þarft að þora að fara í návígin og taka ákvarðanir. Það er starf okkar þjálfaranna, að sjá til þess að menn fari með gott leikskipulag og rétt spennustig inn í leikinn,“ bætti Hallgrímur við.
Hann sagði sína menn ekki gefa því neinn gaum að þeir séu taldir minni spámennirnir í úrslitaleiknum á laugardag.
„Við erum ekkert að spá í einhverju svoleiðis. Víkingur er gott lið. Við erum búnir að mæta góðum liðum mörgum sinnum í sumar. Við notum enga orku í að spá í það,“ sagði Hallgrímur að lokum í samtali við mbl.is.