Fylkir tók á móti ÍBV og gerðu liðin jafntefli, 2:2, í fyrstu umferð neðri hlutans í Bestu deild karla í knattspyrnu.
Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið í fallbaráttunni en fyrir leikinn sat Fylkir í níunda sæti deildarinnar með 21 stig, tveimur stigum fyrir ofan ÍBV sem sat í ellefta sætinu sem er jafnframt fallsæti.
Fyrsta mark leiksins kom strax á áttundu mínútu þegar Elís Rafn Björnsson skoraði laglegt mark með skoti fyrir utan teig eftir gott hlaup upp hægri kantinn. Það var mikil barátta í leiknum og þá helst á miðju vallarins þar sem bæði lið reyndu að ná stjórn á leiknum.
Ekki var mikið meira á dagskrá þennan fyrri hálfleikinn og hálfleikstölur voru því 1:0 fyrir Fylki og Fylkismenn í góðri stöðu fyrir seinni hálfleikinn.
Í seinni hálfleik fór allt á flug eftir tæpar tuttugu mínútur þegar Tómas Bent jafnaði leikinn fyrir ÍBV með laglegu skallamarki úr hornspyrnu. Varamaðurinn Sverrir Páll Hjaltested var svo á ferðinni þegar hann renndi boltanum fram hjá Ólafi í marki Fylkis og kom Fylkismönnum í 2:1.
Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði varamaðurinn Þóroddur Víkingsson með sinni fyrstu snertingu í leiknum og jafnaði metin fyrir Fylki í 2:2. Þóroddur var að stimpla sig vel inn í leikinn og skorar sitt fyrsta mark fyrir félagið.
Það voru lokatölur hér í dag og er allt galopið í fallbaráttunni. ÍBV fer upp fyrir Fram í 9. sætið en Fram á þó leik til góða.