Langþráður og mikilvægur sigur Blika

Málfríður Erna Sigurðardóttir úr Stjörnunni og Elín Helena Karlsdóttir úr …
Málfríður Erna Sigurðardóttir úr Stjörnunni og Elín Helena Karlsdóttir úr Breiðabliki í hörðum slag á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Breiðablik náði í dag undirtökunum í baráttunni um annað sæti Bestu deildar kvenna í fótbolta með því að sigra Stjörnuna, 2:0, á Kópavogsvellinum.

Breiðablik er nú með 37 stig í öðru sæti deildarinnar þegar tveimur umferðum er ólokið, Stjarnan er með 35 stig og Þróttur 34 en liðin þrjú berjast um eitt sæti í Meistaradeildinni næsta ár. Katrín Ásbjörnsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir skoruðu mörkin.

Leikurinn fór mjög rólega af stað og var eins og taugatitringur væri í báðum liðum fyrstu tíu mínútur leiksins. Lið Breiðabliks spilaði mjög aftarlega á vellinum og leyfðu þær Stjörnukonum að sækja á nánast öllu sínu liði. Blikar komust varla fram yfir miðju allan fyrri hálfleikinn.

Á 18. mínútu kom upp ljótt atvik þegar Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Arna Dís Arnþórsdóttir skullu saman. Eftir talsverða aðhlynningu þurfti Vigdís Lilja að fara af velli og í hennar stað kom Viktoría París Sabido.

Á 23. mínútu sótti Betsy Hassett að marki Blika frá hægri. Hún tók fast skot utan teigs sem snérist upp í hægra hornið en Telma Ívarsdóttir varði meistaralega í markið Breiðabliks og aftur fyrir.

Ekkert markvert gerðist á vellinum næstu 22 mínútur leiksins nema það að Blikar lágu allar til baka og Stjörnukonur sóttu látlaust án árangurs.

Í uppbótartíma fengu Blikakonur hornspyrnu. Agla María Albertsdóttir tók hornspyrnuna, sendi boltann inn í teig og þar var Katrín Ásbjörnsdóttir mætt og skoraði fyrir Breiðablik, algjörlega gegn gangi leiksins.

Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir Breiðabliki.

Í síðari hálfleik var eins og meira líf væri í Blikakonum. Þær færðu sig ofar á völlinn og jafnaðist leikurinn til að byrja með. Það átti þó eftir að breytast því að þegar líða tók á síðari hálfleikinn þá pressuðu Stjörnukonur þær aftar og aftar og voru þær komnar í sömu stöðu og í fyrri hálfleik.

Blikar voru þó meira í að beita skyndisóknum og á 69. mínútu borgaði það sig þegar Andrea Rut Bjarnadóttir fékk boltann frá vinstri, tók sprettinn inn í teig hægra megin og skaut að marki en Erin Katrina McLeod varði. Boltinn barst þó aftur til Andreu sem skaut aftur og skoraði.

Staðan var orðin 2:0 fyrir Breiðabliki og vonin um annað sætið vel á lífi enda á þessari stundu var staðan í leik Þór/KA og Þróttar 1:0 fyrir Þór/KA.

Blikakonur héldu áfram að liggja til baka og keyra hratt í sóknir sínar þegar þær náðu boltanum. Oft var baráttan þó erfið fram á við fyrir Breiðablik því þær sóttu á fáum leikmönnum. Stjörnukonur reyndu hvað þær gátu að minnka muninn en það gekk ekki.

Niðurstaðan var því 2:0 fyrir Breiðabliki sem endar eyðimerkurgöngu sína í deildinni og er aftur komið í annað sæti deildarinnar.

Breiðablik 2:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert