Megum ekki láta pressuna buga okkur

Gunnleifur Gunnleifsson var ánægður með sitt lið í dag.
Gunnleifur Gunnleifsson var ánægður með sitt lið í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Gunnleifur Gunnleifsson þjálfari Breiðabliks var ofboðslega ánægður með langþráðan 2:0 sigur Blikakvenna gegn Stjörnunni í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag.

Með sigrinum endurheimti Breiðablik annað sætið í deildinni og er í lykilstöðu um að ná öðru sætinu í deildinni og komast í keppni um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Hvernig líður þér með fyrsta sigurinn í mjög langan tíma?

„Daglegt líf okkar fótboltanördanna snýst svolítið um hvort þú vinnir eða tapir fótboltaleikjum. Tilfinningin er geggjuð að hafa unnið þennan leik og ég er í sjöunda himni, þetta er mikill léttir.“

Þið endurheimtið annað sætið með þessum sigri, er ekki talsverð pressa á Breiðabliki að ná þessu umspilssæti?

„Það er alltaf pressa á Breiðabliki, sérstaklega á kvennaliðinu og þegar allt kemur til alls að þá þurfum við að vanda okkur við að láta pressuna ekki buga okkur. Við stjórnum því sem við getum stjórnað og öðru ekki. Núna kemur góð pása þar sem við náum að undirbúa okkur vel og byggja ofan á þennan sigur. Núna snýst þetta bara um okkur og hvað við gerum.”

Var uppleggið í dag að spila með allt liðið á bakvið boltann verjast bara?

„Já, ég get alveg sagt þér að uppleggið var að spila alveg til baka frá 1-90 mínútu. Vinna varnarvinnuna vel, verja markið okkar. Við erum búin að fá alltof mikið af mörkum á okkur og á endanum snýst þetta alltaf um að vinna fótboltaleiki.

Það væri geggjað ef við gætum spilað samba bolta og unnið alla leiki en okkur vantaði sigur og við þurftum bara að grafa djúpt og leita inn á við til að sækja þennan sigur. Þannig að uppleggið var að vinna varnarvinnuna vel og nýta hæfileikana fram á við sem kunna að refsa. Það gekk upp í dag.“

Næsti leikur er á móti FH. Verður þetta uppleggið á móti FH?

„Ég er bara ekki farinn að hugsa svona langt. Þetta gekk vel og svo verðum við bara að meta hvað er besta uppleggið á móti FH. Næsta verkefni er að njóta þess að hafa unnið í dag og svo finnum við út hvað er besta vopnið á móti FH,“ sagði Gunnleifur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert