Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var að vonum svekktur eftir 0:2-tap liðsins gegn FH í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.
„Það vantaði einhvern neista, sem við þurfum að finna aftur. Við þurfum að finna ástríðuna aftur. Það vantaði hungur og ákveðni sem hefur einkennt liðið,“ sagði Óskar við mbl.is eftir leik, en Breiðablik hefur nú tapað þremur deildarleikjum í röð.
„Fyrstu 15-20 mínúturnar voru þrælfínar og við hefðum getað skorað þá, en það vantaði eitthvað. Það vantaði eitthvað hráefni sem hefur gert þetta Blikalið að því liði sem það hefur verið síðustu ár. Við þurfum að finna það,“ útskýrði Óskar.
Breiðablik komst á dögunum í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar og hefur það ferðalag haft slæm áhrif á frammistöðu liðsins í deildinni.
„Það lítur út fyrir að þessi mikla keyrsla sem var á liðinu hafi skilið eftir sig einhvers konar tilfinningu að menn væru saddir. Þegar menn verða saddir missa þeir drifkraftinn og hungrið. Það er mikilvægur hluti af því að vera gott fótboltalið. Við þurfum að finna neistann aftur.
Þessir strákar eru búnir að upplifa mikið á síðasta árinu og margir leikmenn búnir að tikka í mörg box. Núna þurfa menn að endurstilla og finna sér ný markmið til að viðhalda hungrinu, neistanum, drifkraftinum og ástríðunni,“ sagði þjálfarinn.
Næsti leikur Breiðabliks er gegn ísraelska liðinu Maccabi Tel-Aviv á útivelli í B-riðli Sambandsdeildarinnar og er um fyrsta leik Blika í riðlakeppninni.
„Auðvitað er það mjög spennandi og verðugt verkefni. Við mætum með mikilli eftirvæntingu, en við verðum að spila betur þar en við gerðum í kvöld ef við ætlum að fá eitthvað út úr því,“ sagði Óskar.