„Það er kalt!“ sagði Svava Rós Guðmundsdóttir, sóknarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, á léttum nótum í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins á Laugardalsvelli í morgun.
„Nei, það er mjög gaman, það er alltaf gaman að spila hérna á Laugardalsvelli fyrir framan alla þannig að ég er bara mjög spennt fyrir þessu,“ bætti Svava Rós við.
Fram undan eru tveir leikir í nýrri Þjóðadeild UEFA, gegn Wales á Laugardalsvelli á föstudagskvöld og svo Þýskalandi í Bochum eftir slétta viku.
„Mér líst vel á það. Við kannski fáum aðeins erfiðari andstæðinga en þá eru bara meiri kröfur á okkur að sanna að við eigum að vera við toppinn,“ sagði hún um komandi þátttöku í Þjóðadeildinni.
Spurð að því hverju mætti eiga von á frá liði Wales á föstudaginn sagði Svava Rós:
„Við spiluðum á móti þeim á Pinatar-mótinu núna fyrr á árinu. Ég var ekki á Pinatar þannig að ég veit persónulega ekkert rosalega mikið um þær.
Við vorum aðeins að fara yfir þær á fundinum áðan og þær eru þéttar og sækja með skyndisóknum og svoleiðis. Við þurfum bara að verjast því og spila okkar bolta og þá held ég að okkur gangi ágætlega.“
Svava Rós er á mála hjá Gotham í bandarísku NWSL-deildinni en hefur lítið sem ekkert fengið að spila með liðinu að undanförnu.
„Staðan hjá mér þar? Hún er flókin!“ sagði hún og hló við er blaðamaður spurði Svövu Rós út í stöðu sína hjá félaginu. Kvaðst hún því vera að líta í kringum sig.
„Ég er ekkert búin að vera að fá að spila með Gotham þannig að það er bara spurning hvað gerist hjá mér. Það eru einhverjar viðræður við önnur lið í gangi.“
Geturðu losnað frá Gotham á þessum tímapunkti?
„Ég held að það fari aðallega eftir deildinni sem ég fer í og svo líka hversu mikið Gotham er til í að láta mig fara, hvernig það verður.
Það kemur í ljós. Ég samdi til tveggja ára og á því eftir eitt heilt tímabil í viðbót,“ útskýrði Svava Rós.
Eftir að hafa byrjað vel með Gotham og spilað mikið í byrjun tímabilsins hefur hún ekki fengið nein tækifæri að undanförnu. Af hverju hefur það verið?
„Akkúrat, ég spyr mig sömu spurningar. Ég var að spila mikið í byrjun en svo allt í einu ekki, þeir hafa einhvern veginn ekki viljað nýta mig.
Ég hef ekki fengið neinar ástæður fyrir af hverju það er. Svoleiðis er það stundum. Stundum gengur þetta upp og stundum ekki,“ sagði Svava Rós að lokum í samtali við mbl.is.